Wednesday, May 10, 2006

Sorg

Á mánudag var dóttir æsku vinkonu minnar jörðuð. Tæplega þrítug kona, lífsglöð og falleg. Móðir þriggja ára stúlku. Hún greindist með krabbamein stutt eftir fæðingu dótturinnar. Ég man eftir Jóhönnu Helgu nýfæddri, ég man hana sem ungling sem gekk úr rúmi fyrir okkur hjónin, ég man hana á leikskóla dóttur minnar þar sem hún starfaði um tíma og hvað ég hló þegar barnið mitt fór allt í einu að tala syngjandi norðlensku því Jóhann Helga ólst að miklu leit upp á Akureyri. Og ég man stolta móður með lítið barn í vagni. Þessi unga kona þekkti sorgina því hún missti þrjú systkin sín í snjóflóðinu í Súðavík. Systir hennar hefur nú horft á eftir fjórum systkinum sínum. Þetta er ekki sanngjarnt.
Svo fór ég í jarðarför frænku minnar sem var komin yfir áttrætt og hafði verið heilsulaus í mörg ár. Í erfinu mátti sjá söknuð og sorg. Ekki sorg yfir að Sæja fengi langþráða hvíld heldur sorg yfir að geta ekki notið samvista lengur við mikla ágætiskonu.
Ég ók upp á Akranes í jarðarförina með móður mína og tvo mága hennar. Þeir eru ekklar eftir móðursystur mínar sem báðar dóu úr krabbameini langt um aldur fram.

2 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

Samhryggist innilega.

8:31 am  
Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir það Hildigunnur - K.

7:05 am  

Post a Comment

<< Home