Sunday, January 02, 2005

Alvara lífsins

"Á morgun byrjar alvara lífsins" þetta sagði pabbi gjarnan svona á sunnudagseftirmiðdögum þegar liðið var langt á helgi og mánudagurinn framundan. Og það má svo sannarlega segja - á morgun er fyrsti vinnudagur á nýju ári. Verður örugglega allt í lagi þegar maður er mættur á svæðið, en eftir öll herlegheit jóla og áramóta þá er maður eiginlega ekki alveg tilbúin að mæta hversdagsdeginum. Áramótin voru fín hér í Vogahverfinu. Íbúar Litlu götu hópuðust saman og skutu í kringum miðnætti. Síðan var farið á milli húsa og nágrannar kysstir og dansað við gamlar frænkur og sungið við píanóundirleik. Glas hér og sopi þar. Rosalega gaman hjá krökkunum í götunni að hittast og skemmta sér saman. Gærdagurinn var rólegur, alltaf er ég jafn fegin á nýársdag að tilheyra ekki þeim hópi sem þarf að fara í greiðslu og kjól og mæta einhverstaðar í fínan dinner. Bara ölglas, horft á skaupið öðru sinni og borðað eitthvað gott. En nú er mér ekki til setunnar boðið - það bíður eftir mér tonn af þvotti - Alvara lífsins byrjar greinileg í dag. GLEÐILEGT NÝTT ÁR OG TAKK FYRIR GÖMLU ÁRIN

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Alvara lífsins, hvað er það?

Einar

2:28 pm  

Post a Comment

<< Home