Jæja
Ég hef verið ósköp löt við bloggið undanfarið - eitthvað óyndi í mér og mikið að gera. Stóri dagurinn rennur upp á laugardaginn þegar við í kórnum góða flytjum Þýska Sálumessu eftir Johannes Brahms. Stórkostlegt verk sem ykkur stendur til boða að heyra á laugardag klukkan 17:00 í Langholtskirkju. Dómkórinn, Kristinn Sigmundsson, Huld Björk Garðarsdóttir, Anna Guðný Guðmundsdóttir og Peter Maté flytja undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar. Þetta verk er algjörlega gjörsamlega magnað og útheimtir kraft og þor. Enda hefur maður verið eins og undin tuska eftir æfingar undanfarið. Eftir þennan flutning ætla ég að taka mér kór pásu, ég hef reyndar ekki verið alveg á fullu með það sem af er vetrar heldur einungis í Brahms. Mér finnst bara ég eitthvað svo margskipt og hvergi ánægð með frammistöðu og þá er um að gera að gera eitthvað í málinu. Mig langar í bústað um helgar, þá eru kóræfingar á laugardögum og messusöngur. Ég þarf að hjálpa henni Önnu minni við allt heimanám og það tekur tíma mikinn tíma og helst að við gerum það eftir snemma kvölds eða eftir kvöldmatinn sem sjaldnast er borðaður fyrr en eftir 20:00. Maðurinn minn á frí aðra hvora helgi og þá vil ég geta komist burt úr bænum og finnst leiðinlegt eitthvað hálfkák með kóræfingar og messu. En við sjáum til þegar líða tekur á veturinn. Annars eru kvöldin oft eins og í torfbæ í gamladaga, lesnir húslestrar og prjónað. Ég hlusta yfirleitt á þá yngri lesa heimalesturinn og prjóna lopapeysu á meðan - afskaplega notalegt. Ég tók þá ákvörðun að reyna ekki að horfa á sjónvarp fyrr en eftir tíu - ég er dálítið mikill sjónvarpssjúklingur og það er ágætt að hafa einhverja svona reglu. Ein er þó undantekning og það er ANTM á miðvikudögum með dætrunum - unaðslegur þáttur þar sem um mig fer hrollur. Svo tek ég náttúrulega upp Bráðavaktina - hún er ómissandi. Ég hugsa að ég skrifi dálítið meira seinna í dag.....
2 Comments:
Mikið eru þessi ruslkomment orðin hvimleið.
Já þetta er frekar leiðinlegt - nú er búið að setja enn öflugri síu á tölvu póstinn hér í vinnunni þannig að ég er hætt að fá svona 10 - 15 gylliboð um kynlífstöflur og skyndigróða þegar ég opna tölvuna.
K.
Post a Comment
<< Home