Thursday, January 18, 2007

Þorrablót Bolvíkinga

Eftirfarandi stal ég af vef Höllu Signýjar og finnst gott innlegg í umræðuna um þorrablótið í Bolungarvík:

Mynd úr Víkinni.
Inga er 54 ára Bolvíkingur og er fædd og uppalin hér í Víkinni. Foreldrar hennar fóru alltaf á þorrablótið því þetta var aðalskemmtun ársins þá líkt og nú. Seinna þegar systkini hennar hófu sambúð fóru þau að fara og allir höfðu jafn gaman af. Inga hefur aldrei verið í sambúð en á tvær dætur sem eru nú orðnar gjafvaxta og önnur í sambúð og ætlar á komandi þorrablót. Inga hefur alltaf tekið virkan þátt í félagslífi er í kvenfélaginu og hefur þar setið í stjórn, driffjöðrin í slysavarnarfélaginu og er virkur þáttakandi í öllu því sem gerir mannlífið í Víkinni fallegra og betra.Hún hefur svo sem ekki gert sér grillu út af þessu þorrablóti en samt! Hún á nú oftast vinkonu í nefndinni sem bíður henni alltaf á lokaæfingu svo hún getur notið skemmtiatriðanna sem alltaf eru settar fram af miklum metnaði og mikið lagt í.Inga ætlar að bjóða í mat vinum og kunningjum sem hún veit að fara ekki á blótið enda ekki seturétt.
Gestalisti Ingu lýtur svona út.

Guðrún, hún missti mann sinn fyrir tveimur árum eftir 30 ára hjónaband, þau fóru alltaf á þorrablótið og var eiginlega þeirra eina skemmtun svo hún getur ekki fengið af sér að mæta og vera “stök” alltof margar minningar.

Jóna, hún skildi í maí á síðasta ári, var í nefndinni síðast og búin að vera á 10 þorrablótum. Hún er frekar fúl yfir þessu, en má ekki fara. Fyrrverandi maðurinn hennar náði sér fljótt í nýja konu og mætir því galvaskur á blótið í fullum rétti.

Gulli, er bróðir Ingu, hann er þroskaheftur og býr í Hvíta húsinu. Hann hefur mjög gaman af því að fara á mannamót og mætir alltaf á pöbbinn um hverja helgi til að spjalla við fólkið. Hvers manns hugljúfi.

Stefanía yngri dóttir Ingu, hún er einstæð móðir og vinnur í Bakkavík.

Karl er 30 ára, er íþróttakennarinn á staðnum, samkynhneigður en ekki í sambúð, en á kærasta í Kópavogi.

Róbert, fráskilinn myndalegur karl á sextugsaldri, Inga er nú að vonast til að hann og Guðrún fari nú að taka betur eftir hvort öðru sem kannski leiðir til þess að þau ná þátttökurétti og þeirri stöðu í samfélagi Bolvíkinga að þau verði nógu rétthá til að vera velkomin á Þorrablót Bolvíkinga.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Sæl Kristín Björg, greinilega Hnífsdælingur en hvurra manna? eins og við segum hérna fyrir vestan. Jú Sigga var fósturdóttir Halldórs og Rebekku. Svona er nú heimurinn lítill, ég man eftir þessu kvæði, það er allavegna í ritsafninu Sóldögum.
með kveðju
Halla Signý

8:25 am  
Blogger Kristin Bjorg said...

Sæl Halla - mamma mín heitir Kristín Pálsdóttir - dóttir Jensínu Jensdóttur og Páls Þórarinssonar. Meðal systra hennar var Erla sem var gift Bolvíkingnum Eiríki Bjarnasyni augnlækni. Systkinabarna við hana var Sæunn Guðjónsdóttir sem lengi bjó með Kristjáni (Kitta) manni sínum í Bolungarvík. Ég var stundum hjá þeim á sumrin.
Ertu einhverju nær!

1:05 pm  
Anonymous Anonymous said...

Segir mér allt! kannast við allt þetta. Vestfirðingur sem sagt í húð og hár.

Ég er sjálf úr Önundarfirði en maðurinn minn (já já ég hef seturétt á þorrablót) er héðan úr Víkinni, Siggi Gummi
kveðja Halla Signý

6:51 pm  

Post a Comment

<< Home