Saturday, September 04, 2004

Minningar

Í morgun báðu dætur mínar um "brunch" í morgunmat. Hjá þeim þýðir brunch það sem amríkanar kalla french tost (er þetta rétt skrifað) þ.e. brauð sem velt er uppúr eggi sem blandað er með mjólk og síðan steikt á pönnu og borðað með hlyn sírópi. Alveg gasalega gott og skemmtileg tilbreyting svona stöku sinnum um helgar.
Ég kynntist þessum morgunmat þegar ég var lítil stelpa og dvaldi oft á Laugarvatni hjá Jóhanni föðurbróður mínum og konu hans Winston. Winston var fædd í Amríku, að ég held í suðurríkjunum en kynntist Jóhanni þegar þau stunduðu nám við Berkley háskóla í Kaliforníu. Síðan bjuggu þau hjón í Íþöku þar sem Jóhann vann við íslenska bókasafnið við Cornell háskóla.
Það var allt öðruvísi andrúmsloft á Laugarvatni en annarstaðar, þarna blésu erlendir vindar og töluð enska á heimilinu. Skólameistarahúsið á Laugarvatni er stórt hús og það var afar gestkvæmt hjá þeim hjónum yfir sumartímann. Bæði voru það ættingjar Winston frá USA og síðan vinir þeirra og vinir vina þeirra. Þarna var líka Eddu hótel og gaman fyrir stelpu skottur að sjá öðruvísi fólk og heyra öðruvísi tungumál. Þarna var ég mörg sumur, bæði með foreldrum mínum og síðan ein hjá þeim hjónum. Og þarna kynntist ég elduðum morgun mat. Winston bauð upp á skrömbluð egg, french tost, beikon, pönnukökur, appelsínusafa, heimabakað brauð og gott kaffi og te. Þetta fannst mér alveg stórmerkilegt, að koma á fætur og vera spurð hvað ég vildi í morgunmat! Að heiman var ég vön því að fá hafragraut og ristað brauð. Mig grunar að Winston hafi verið meira og minna í eldhúsinu frá því snemma morguns og fram til klukkan 11. Þarna hafði hver sitt tempó og fólk fór á fætur á misjöfnum tímum. Þegar ég sjálf bjó í Íþöku í tvö ár þá fannst fér líka frábært að fara á dæner og fá mér eldaðan morgunmat - það var ótrúlegt úrval veitingastaða sem buðu mismunandi brönsa og gaman að sitja lengi, lesa blöðin, og spjalla.
En þegar dætur mínar biðja um French tost um helgar þá dettur mér Winston alltaf í hug. Þau létust bæði Jóhann og Winston langt um aldur fram, hann 1983 og hún 1987. Þau voru hin síðari ár virtir enskukennarar við MH og var ég svo gæfusöm að stija í tímum hjá Winston. Hún var vinkona mín.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

French toast vekur upp bernskuminningar hjá mér. Þetta var af og til í morgunmat (þá aðallega um helgar). Manni þótti þetta rosalega gott en hefði líklega ekki lyst á þessu núna. Einhvern tíma heyrði ég að í Ameríku borðuðu menn pönnukökur með sírópi í morgunmat og þótti það jafnvel enn meira spennandi. Þetta fékk ég síðan að prófa þegar ég var níu ára í ferð til fyrirheitna landsins þar sem sírópið lak af hverri pönnuköku.

4:55 pm  
Anonymous Anonymous said...

Þetta var bara ég. Gleymdi að skrá mig inn. Líka ómerkt komment hér að neðan. Það minnsta sem maður getur gert er að kvitta undir.

Einar J

5:01 pm  
Blogger huxy said...

en heimilislegt! foreldrar mínir og systur bjuggu um tíma í íthoku (fyrir mína tíd semsé) og á mínu heimili var stundum á sunnudogum bodid upp á skromblud egg, beikon og skonsur med sírópi. nammi namm ... í hófi

1:26 pm  

Post a Comment

<< Home