Saturday, March 19, 2005

Afmæli pabba míns

Í dag hefði hann pabbi minn orðið 88 ára gamall.Hann hét Þorsteinn Hannesson og fæddist á Siglufirði 1917 og dó 3 febrúar 1999. Hann sigldi til Englands í stríðinu og lærði söng og starfaði m.a. við Konunglega leikhúsið Covent Garden og víðar í Evrópu. Hann kynntist mömmu árið 1953 og þau giftu sig ári seinna. Mamma vann þá í sendiráði Íslands í London. Hún var seinni kona hans. Þau komu heim í nóvember 1954 og átti mamma á von á sínu fyrsta barni. Pabbi söng þá í jólasýningu Þjóðleikhússins- ég held að það hafi verið Töfraflautan og var pabbi í hlutverki Taminos. Pabbi hætti að syngja mikið til opinberlega í kringum 1960 og fór til starfa sem innkaupastjóri hjá ÁTVR. Hann var þó kennari í söng við Tónlstarskólann í Reykjavík.Hann gerðist aðstoðartónlistarstjóri Ríkisútvarpsins í kringum 1968 eða 1969 og tónlistarstjóri 1974. Hann var frekar heilsulítill og hætti sem tónlistarstjóri 1981 og tók til starfa við safn útvarpsins og tók að sér að koma skikki á 78sn plötusafnið. Við það starfaði hann langt fram yfir sjötíuára aldurinn og naut þess.Sérstaklega fannst honum gaman þegar flutt var í Efstaleitið því hann hafði verið hálfgerður einyrki á Suðurlandsbrautinni með safnið. Honum fannst rosalega gaman að kynnast öllu þessu unga fólki sem starfaði þar og eignaðist marga góða vini úr þeirra hóp. Hann var ungur í anda og húmoristi góður. Hin síðustu starfsár gekk hann undir nafninu "Steini mónó" hjá unga fólkinu í Efstaleiti. Pabbi hvatti okkur börnin sín - hann eignaðist 3 með mömmu, en hafði eignast son um tvítugt - til tónlistarnáms. Ég og eldri bróðir minn fórum bæði í tónmenntakennaradeild tónlistarskólanns en sá yngsti gerðist kennari en hefur afskaplega fallega bassarödd og syngur að sjálfsögðu með systur sinni í Dómkórnum.
Pabbi var ekki þessi nútíma pabbi -hann var 41 árs þegar ég fæddist og aldrei man ég eftir að hann léki við okkur, en hann talaði við okkur um bókmenntir, tónlist og önnur andans efni. Ég fann vin í pabba.
Í dag hefst miðasala á Robert Plant tónleikanna - hvað kemur það pabba við? Jú ég fór með honum á Led Zeppelin tónleikana árið 1970 þá tólf ára gömul. Hann var þá aðstoðartónlistarstjóri útvarpsins og til stóð að senda tónleikana út beint, en á síðustu stundu fékkst ekki leyfi til þess. Við settumst því hjá áhorfendum og það helsta sem ég man eftir tónleikunum er að fyrir aftan okkur sat hljómsveitin Trúbort- og þau töluðu við pabba! Ég man sérstakelga eftir Rúnari Júl í afganpels og ótal hálsmen.
Nú er ég 47 og ætla ekki á Robert Plant tónleikana - en ég ætla að leiðinu hans pabba í dag.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Sómamaður hann pabbi þinn.

1:06 pm  
Anonymous Anonymous said...

Þetta er fallega skrifað hjá þér Kristín. Hann hefur greinilega verið merkilegur maður hann pabbi þinn.

Einar

1:08 pm  

Post a Comment

<< Home