Tuesday, June 14, 2005

Litlar æfingabúðir

Minn dásamlegi kór hittist í Hveragerði til æfinga á laugardeginum. Ég læddist út úr bústaðnum svona rétt uppúr hálf tíu og var komin á söngmót hálftíma síðar. Við tókum góðan sprett í Brahms requiem - og þetta var hrein unun. Sólin skein og í hádegishlénu sátum við undir kirkjuvegg og snæddum og bulluðum. Klukkan 14:00 kom svo hinn einstaki og frábæri Kristinn Sigmundsson ásamt konu sinni og æfði með okkur þá tvo kafla þar sem er baritón sóló. Mitt fólk kom síðan og náði síðustu tónum æfingarinnar. Fórum og keyptum víði - Heggstaðavíði - til að búa til skjól í fjallinu bak við bústaðinn. Potuðum niður um 40 plöntum. Bjór í glas, snafs í staup, lamb í ofn, fólk í pott. Eftir miðnættið gegnum við síðan öll niður að Hvítá í dásamlegu veðri. Ég lagðist í mosann, hlustaði á fuglasönginn, niðinn í ánni, leik barnanna og hugsaði með mér að nær himnaríki væri ekki hægt að komast.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home