Wednesday, October 11, 2006

Umheimurinn

Nú til dags er lítið mál að hafa samband við föðurlandið þó svo fólk sé í útlöndum. GSM-símar, sms, mns, mbl,ruv,skype,blogg o.s.frv. Og ég hef heyrt á máli fólks að jafnvel þó svo ungmenni fari sem skiptinemar eða til náms erlendis þá lengist bara naflastrengurinn.
Mér datt þetta svona í hug þegar ég sá myndir af leiðtogafundi Regans og Gorbsjovs í gær.
Ég hef tvisvar búið í útlöndum - fyrra skiptið 1976 þegar ég var 18 ára þá var ég í Noregi í þrjá og hálfan mánuð. Á þeim tíma þá hringdi ég einu sinni heim og það var afþví að mamma varð 50 ára. Pabbi hringdi svo einu sinni í mig því hann var staddur í Noregi.
Þegar ég bjó í Íþöku frá 1985 - 1987 þá var hringt á milli heimsálfa kannski einu sinni í mánuði. Mamma sendi mér gjarnan moggann og var þá búin að klippa út fasteiganauglýsingarnar til að létta blaðið. Svo bárust þær fregnir að leiðtogafundurinn ætti að vera á Íslandi!!!! Við íslendingarir í Íþöku vorum alveg rosalega spennt og söfnuðumst saman á heimili Hannesar og Soffíu kvöld eftir kvöld til að fylgjast með kvöldfréttum stóru sjónvarpsstöðvanna. Það voru allir komnir í stellingar klukkan 18:00 og svo var svissað á milli stöðva því kvöldfréttir voru á sama tíma á ABC,CBS og NBC. Okkur þyrsti að sjá myndir að heiman og fögnuðum ógurlega þegar Steingrímur Hermannsson steig upp úr sundlauginni og talaði um álfa.
Breyttir tímar.........

3 Comments:

Blogger Unknown said...

Ég var í Bandaríkjunum 1989-1994 og það var svipað upp á teningnum hjá mér. Maður hringdi svona mánaðarlega eða reyndi að halda sig við það, og það var alveg foráttudýrt. Svo var alltaf gaman að fá bréf að heiman.

Enginn tölvupóstur, engin blogg, ekkert skype, engin sms - hvernig fólk lifði þetta af er eiginlega óskiljanlegt! :)

1:14 pm  
Blogger Anna Kristjánsdóttir said...

Ég bjó nú bara í Svíþjóð 1989-1996 og notaði faxið í vinnunni alveg grimmt auk þess sem ég var stórkúnni á pósthúsinu. Síðasta veturinn kom netið í vinnunni, en ég kunni ekkert á það og það var heldur enginn sem gat tekið á móti netpósti heima.
Fyrsti netpóstur sem ég sendi var haustið 1996.

3:04 pm  
Blogger Kristin Bjorg said...

Ég var líka rosalega dugleg við bréfaskriftir og ég man enn hvað ég var oft spennt þegar ég var á leið heim á kvöldin - var póstur eða ekki! Ég man að ég treinaði mér að lesa póst og mogga þar til ég gat sest niður með bjór og lesið í rólegheitum. Nú er allt instant og beint í æð...

5:27 pm  

Post a Comment

<< Home