Bara smá um hið dásamlega sumarbústaðalíf helgarinnar. Þessu verður skipt í þrjá hluta - SVEFN
ANDLEGT OG LÍKAMLEGT FÓÐUR
FÉLAGSSKAPUR
Svefn:
Við hjón komum í bústaðinn um 19.00 á föstudagskvöldinu og ég slökkti hjá mér uppúr 10:30 og vaknaði ekki fyrr en klukkan 09:30 næsta morgun. Ellefu tímar þar. Þess skal geta að ég svaf í rúma átta tíma nóttina áður og varð að hringja í vinnuna og melda mig um hádegið vegna þreytu.
Jæja eftir geysi góðan nætursvefn var morgunmatur í ró og næði - lagði mig aftur með bók og vaknaði klukkan 14:30.
Er þetta normal?
Var sofnuð uppúr miðnætti á laugardegi og svaf eins og fiskur fram eftir morgni.
Andlegt og líkamlegt fóður:
Af andlega fóðir er það að segja að í bústaðnum kláraði ég að lesa Aldingarðinn eftir Ólaf Jóhann. Ekki segi ég að mér hafi leiðast - en mikið voðalega er þetta slétt og felld bók og rislítil. Eins fékk ég einhverja tilfinningu að hún væri þýdd - en það getur ekki verið. Þessa er auðvelt að lesa.
Byrjaði síðan á Sendiherranum og er ekki alveg viss um hvað mér finnst. Mér finnst hún allaveg ekki sérlega skemmtileg - eins og ég var hrifin af Samkvæmisleikjum. En hef þó ekki gefist upp og finnst nokkuð gaman núna eftir að ritstuldurinn komst upp. Ætla að klára og sjá hverju fram vindur.
Um líkamlega fóðrið er það að segja að Gulli minn var búin að kaupa dýrindis osta, brauð og ávexti sem við nörtuðum í með bjórnum á föstudagskvöldinu.
Á laugardeginum vorum við með lambalæri og stungum það út með tveim hvítlaukum.
Ég steikti amrískar pönnsur á sunnudeginum en þær voru ekki góðar því ekkert átti ég lyftiduftið.
Félagsskapur:
Við fórum bara tvö uppeftir á föstudeginum og mikið var gott að vera bara ein og sjálf - engin börn. Á laugardeginum komu Ari og mamma hans og pabbi en ákveðið hafði verið að Ari væri hjá okkur um nóttina og kæmi með okkur í bæinn á sunnudeginum. Pabbi og mamma hans kvöddu hann glaðan og reifan. Um klukkan 18:00 komu svo stelpurnar með föðurbróður sínum og þá var nú fjör.
Ari minn er ótrúlegur - hann naut þess að vera með okkur og borða stóran kvöldverð og skála við alla. Hann fékk líka að stjórna hermileik - þegar hann klappaði þá klöppuðu allir - þegar hann togaði í eyrun þá togðu allir í eyrun o.s.frv. Hann var síðan sofnaður fyrir 22:00 og svaf til 11:45 næsta morgun. Það er ekki erfitt að vera með svona barn.
Eina sem hann hafði út á dvölina að setja var þegar þessi frænka vildi skipta um bleyju - þá kom dramatískur grátur og hann grúfði andlitið í höndum sér VEI ÞÉR VONDA VERÖLD!