Monday, October 31, 2005

Íslenska

Eldri dóttirin er voða mikið að spá í þessa daga hvernig hún talar. Hún segir aldrei hæ heldur sæl, hún borðar ekki heldur snæðir eða etur, hún segir ekki takk heldur þökk, hún segir ekki mamma mín og pabbi heldur faðir minn og móðir, ekkert er fallegt heldur fagurlegt, hún hefur ekki áhuga á að vita hvað við gerðum þegar við vorum lítil heldur hvað við gerðum þegar við vorum ung að árum eða á æskuárum. Þetta er rosalega skemmtilegt og hún er afskaplega gamaldags eitthvað og segist tala forn íslensku.

Harpa Sjöfn

Hvernig í ósöpunum dettur þeim í hug að fleygja þessu ágæta nafni og láta málninguna heita einhverju útlendu nafni. Meira að segja persóna í kvikmynd heitir í höfuðið á þessu fyrirtæki sem reyndar var tvö fyrirtæki þegar myndin var gerð. Það mundi engin nefna persónu í kvikmynd Flugger eða hvað.

Af köttum

Við reyndum allt sem við gátum til að fóstra köttinn Bratt sem er sex ára gamal högni. Bratti leið ósköp illa hjá okkur og þó svo við lokuðum hann inni í lengri eða skemmri tíma, leituðum að honum á kvöldin, gæfum honum þorsk og rækjur, og reyndum á allan hátt að láta honum líða vel þá vildi hann alls ekki þýðast okkur og hreinlega lagðist út. Svo heppilega vildi til að konan og dóttir hennar sem leigja húsið af Gústa og Betu var til í að taka ræfilinn og eftir því sem þær segja þá gengur þetta ágætlega og Brattur er sáttur við að vera komin heim.
En við vorum náttúrulega komin með kattar þrá. Við hjón áttum alltaf ketti áður en börnin komu til sögunnar, en höfum ekki nennt fyrr en nú að fá okkur kött. Og nú er hún Soffía búin að vera hjá okkur í 3 vikur og er yndislega hreint út sagt. Mér finnst eins og hún sé 3ja dóttirin. Hún er af góðu kyni - við þekkjum hálfbróður hennar og frænku - og hún er fædd á Sauðárkróki 12. júlí. Hún er svona ljós-gul- bröndótt, kelin, vitlaus og fjörug. Svo er svo notalegt að þegar ég stíg út úr sturtunni uppúr 06:00 og opna fram þá bíður hún eftir mér til að bjóða góðan dag þegar allir aðrir sofa. Og það er rosalega notalegt fyrir stelpurnar þegar hún er heima þegar þær koma heim úr skólanum. Nú þarf ég bara að fara með hana í sprautur og láta taka hana úr sambandi sem fyrst......

Snjóraunir

Lentum í því að festa bílinn á leið í sumarbústað á laugardag. Sem betur fer vorum við barnlaus og kattarlaus. Eftir að við vorum búin að fá hjálp við að ná honum upp og leggja á góðum stað hlóðum við vistum og varningi á bakið og gengum að bústaðnum. Sko, þegar maður er með gott rauðvín og hreindýrakjöt meðferðis, veðrið dásamlega fallegt og heitur pottur bíður, þá gefst maður ekki svo auðveldlega upp. Við vorum í góðu yfirlæti í tæpan sólarhringa en lögðum aftur af stað til byggða um 14:00. Þetta gekk alveg ágætlega og engum varð meint af.....

Wednesday, October 26, 2005

Jæja - jólin koma

Í þessum kulda er gott að hugsa til Kanaríeyja en þangað ætlum við um jólin. Þetta er búið að vera leyndó í marga mánuði - ég þoldi ekki tilhugsinuna um að dæturnar væru farnar að pakka stuttbuxum og spekúlera í hlýrabolum og sandölum í september. En þær fengu fréttirnar um helgina, þá gat ég ekki setið á mér lengur.
Mig hefur lengi langað að prófa heitu löndin um jól - Flórída kemur ekki til greina og þá er Kanarý ágætur kostur. Ég slæ hrikalega margar flugur í einu höggi: 1. Ég hef alltaf verið dálítið jólakvíðin þó það fari batnandi með aldrinu 2. Ég og skammdegið eigum ekki saman og blúsinn er oft ekki langt undan. 3. Ég er mjög slæm af sóríasis og mér skilst að sólarlandaferð sé á við margra mánaða ljósa tíma. 4. Ég þarf ekki að vera með eitthvað jólastress. 5. Mig hefur oft langað á sólarströnd, en ég tími hreinlega ekki að fara yfir sumarið. 6. Dæturnar fá þennan draum sinni uppfylltan að baða sig í sjó og fara í vatnsskemmtigarða. Svo ætla ég að lesa og lesa og lesa og liggja í sól og fara út að borða tjilla alveg rosalega....jibbýýýýýý

Friday, October 14, 2005

Góður húmor

Mikið svakalega er Litla Bretland fyndið. Þessir tveir eru hreint út sagt stórkostlegir. Svo hefur mér alltaf fundist Smack the Pony rosalega fyndið. Ég hef ekki séð Stelpurnar á stöð 2, en skilstað það sé nokkuð gott. Mér finnst Spaugstofan fín þessa dagana og strákarnir í stuði. Og svo er það Silvía Nótt - þetta er algjört brill! Þvílík týpa..........og drepfyndin

Setning dagsins

Sú 10 ára í morgun "Mamma það er kominn vetur áður en haustið kemur"

Thursday, October 13, 2005

Jæja

Ég hef verið ósköp löt við bloggið undanfarið - eitthvað óyndi í mér og mikið að gera. Stóri dagurinn rennur upp á laugardaginn þegar við í kórnum góða flytjum Þýska Sálumessu eftir Johannes Brahms. Stórkostlegt verk sem ykkur stendur til boða að heyra á laugardag klukkan 17:00 í Langholtskirkju. Dómkórinn, Kristinn Sigmundsson, Huld Björk Garðarsdóttir, Anna Guðný Guðmundsdóttir og Peter Maté flytja undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar. Þetta verk er algjörlega gjörsamlega magnað og útheimtir kraft og þor. Enda hefur maður verið eins og undin tuska eftir æfingar undanfarið. Eftir þennan flutning ætla ég að taka mér kór pásu, ég hef reyndar ekki verið alveg á fullu með það sem af er vetrar heldur einungis í Brahms. Mér finnst bara ég eitthvað svo margskipt og hvergi ánægð með frammistöðu og þá er um að gera að gera eitthvað í málinu. Mig langar í bústað um helgar, þá eru kóræfingar á laugardögum og messusöngur. Ég þarf að hjálpa henni Önnu minni við allt heimanám og það tekur tíma mikinn tíma og helst að við gerum það eftir snemma kvölds eða eftir kvöldmatinn sem sjaldnast er borðaður fyrr en eftir 20:00. Maðurinn minn á frí aðra hvora helgi og þá vil ég geta komist burt úr bænum og finnst leiðinlegt eitthvað hálfkák með kóræfingar og messu. En við sjáum til þegar líða tekur á veturinn. Annars eru kvöldin oft eins og í torfbæ í gamladaga, lesnir húslestrar og prjónað. Ég hlusta yfirleitt á þá yngri lesa heimalesturinn og prjóna lopapeysu á meðan - afskaplega notalegt. Ég tók þá ákvörðun að reyna ekki að horfa á sjónvarp fyrr en eftir tíu - ég er dálítið mikill sjónvarpssjúklingur og það er ágætt að hafa einhverja svona reglu. Ein er þó undantekning og það er ANTM á miðvikudögum með dætrunum - unaðslegur þáttur þar sem um mig fer hrollur. Svo tek ég náttúrulega upp Bráðavaktina - hún er ómissandi. Ég hugsa að ég skrifi dálítið meira seinna í dag.....