Friday, October 29, 2004

CD-diskar

Ég hef gegnum tíðina ekki verið nógu dugleg að kaupa mér CD diska. Fyrir síðustu helgi keyptí ég þó 3 diska í skífunni: nýja diskinn með Marianne Faithfull svona til að undirbúa mig fyrir tónleika hennar 11. nóvember, svo keypti ég mér safndiskinn með EGO - frábær lög og svona á bubbi að vera ekki einhverjir textar sem hann heldur að séu djúpir og gáfumannlegir heldur stórir strákar fá raflost og því um líkt. Svo var það Beach Boys greatest hits - alveg stórkostlegur diskur, þessu lög, þessar raddir, útsetningar - snilld allt saman - það var allt í botni s.l. laugardag þegar ég var ein heima að falda gardínur!!! Já ég faldaði fjórar gardínur með svona strau borða - einstakt afrek!!!!

Eyrnabólgur ojbara

Stóri og mikli maðurinn minn er búin að vera lasin heima með eyrabólgur - í 3ja skipti á þessu ári. Hann er yfir 1.90 á hæð, en er ósköl lítill og ég set dropa í eyrun. Hann varð talsvert lasin í Grikklandi í sumar af þessum sömu bólgum og heyrir ekki hálfa heyrn á meðan á þessu stendur. Ég held að hann sé nú bara hálf fegin að heyra ekki tuðiði í mér - það skal tekið fram að alla jafnan tala ég fyrir okkur bæði, þ.e. hann getur alveg svarað fyrir sig, en magnið er meira frá mér. Hann ætlaði þó að reyna að byrja að setja saman skápflikki sem við vorum að fá úr IKEA. Þar héf ég verið tíður gestur undanfarið því við erum að poppa upp herbergi stelpnanna. Á morgun er kóræfing og tónleikar þar sem við frumflytjum verk eftir Bob Chilcott sem er breti og samdi verkið fyrir okkur. Hann stjórnar sjálfur og var á æfingu í gær - rosa gaman. Guðrún Jóhanna söngkonan frábæra syngur líka og svo ER FRÍTT INN. Þetta hefst klukan 17:00 - allir velkomnir. Svo kíkir maður á litla ljóta andarungann eftir tónleika - ekki lengi þó, því það er útvarpsmessa hjá okkur á sunnudeginum og á er eins gott að vera upplagður í Knut Nysted - erfið messa eftir kallinn.
Þannig að helgin verður helguð tónleikum, húsverkum og þvottum - og að koma börnunum í skólagírinn.
Á miðvikudaginn eftir kosningar, þann 3. nóv. held ég síðan til Svíþjóðar í háskólabæinn Linköping. Þar ætla ég að heimsækja höfuðstöðvar VTO sem er stór og virt rannsóknarmiðstöð umferðarmála. Ég fer og sé þar að ég held crash test þar sem barnabílstólar snúa annarsvegar fram og hins vegar baki í akstursstefnu, en þannig viljum við að börnin snúi sem lengst allavega til 3ja ár aldurs. Þetta verður spennandi að sjá og gott að hitta fagfólk frá öðrum löndum.
Svo tek ég lest til Kaupmannahafnar og hitt mömmu mína 78 ára gamla og við ætlum að eiga mæðgna helgi saman. Við ætluðum í aðventuferð í fyrra en þá brotnaði blessunin. Ég hlakka til að vera með mömmu minni á röltinu í Kaupmannahöfn. Við höfum verið saman áður í útlöndum en aldrei bara tvær saman. Ég er búin að panta borð fyrir okkur á hinum ýmsu stöðum og svo verður þetta bara sund í sælu.......

Tuesday, October 26, 2004

Kennaraverkfall

Hér um árið var skólaárið lengt í kjölfar kennaraverkfalls - nú er talað um að stytta það aftur - í kjölfar kennaraverkfalls. Var semsagt þessi lenging ekki byggð á faglegum grunni - eru börnin einhverskonar jójó þegar kemur að því að semja við kennara - ekkert faglegt við það..Ég er enn á því að taka börnin mín úr skóla og fá peninginn og kenna þeim heima. Dóttir mín eldri, sú lesblinda, er búin að fara í 3 auka tíma í ensku og hefur lært meira af þeim heldur en á heilum vetri. Já já....

Monday, October 25, 2004

Slanga

Ég vildi að ég væri slanga og gæti haft hamskipti! Þegar frystir er lífið erfitt - heilvítis sórinn.
Þó ég sé þokkaleg í húðinn hvað varðar psoriasis útbrotin þá finn ég hvernig húðin verður smá saman þurrari og mig langar úr henni! Ég er aðeins með útbrot í hársverðinum og á fætinum núna, en finn fyrir vanlíðan einhvernveginn um allan kroppinn.
Ég var orðin 37 ára þegar psoriasinn uppgötvaðist og þá varð allur kroppurinn útsteyptur, nema hvað andlitið slapp nokkurnveginn svo og bakið. Heimili mitt varð eins og meðal apótek, allar tegundir af rakakremum. Ég gat ekki skorið t.d. grænmetin án þess að vera með hanska því þetta var undir öllum nöglum. Ég þurfti að fara og láta búa um fæturnar á húðdeildinni og svaf oft með gums í hársverðinum, gums á fótum og gums á höndum. Þetta þýddi að ég varða að sofa með plast hlíf á haus, fótum og höndum - einstaklega sexí.......Ég er bara góð núna, en þetta blundar þarna einhverstaðar.......Eg á náttúrulega að búa þar sem rakt er og hlýtt en ekki þurrt og kalt. Hvernig væri að flytja til Balí t.d?

Wednesday, October 20, 2004

Kór og skemmtilegheit

Þessi dásamlegi kór minn er að æfa skemmtilegt. Við erum að æfa Te deum eftir Arvo Part og splunkunýtt verk eftir Bob Chilcott. Te deum er fyrir þrjá kóra; einn blandaðan, karlakór og kvennakór og tilheyri ég síðastnefnda kórnum. Þetta er rosalega erfitt verk og ákaflega skemmtilegt að æfa og vonandi líka að hlusta á - með strengjum og segulbandi og alles. Ég held að Hamrahlíðarkórinn hafi flutt þetta fyrir um 20 árum. Ég hef einusinni sungið Arvo áður - það var með 200 manna kór úr hamrahlíðinni með sinfó fyrir tæpum tveim árum.
Svo er það nýtt verk eftir Bob Chilcott sem er breti og söng sem barn með Kings College í Cambridge og síðan með söngflokknum King´s singers.Verkið er sérstaklega samið fyrir kórinn okkar. Þetta ver verk fyrir tvo kóra sem syngjast á. Nokkuð aðgengilegt verk með fallegum línum. Svo kemur maðurinn sjálfur og stjórnar okkur í frumflutningumum. Svo æfum við messu eftir Knud Nysted sem við syngjum í messu sunnudaginn 31. október. Einnig erum við að æfa messusvör eftir Róbert Abraham og syngjum einnig undur fallegt O Magnum Misterium eftir Lauritzen sem við héldum að væri dani en reyndis vera amríkumaður og talsvert þekktur þar fyrir fallega kórtónlist. Svo það er margt skemmtilegt í vændum í tónlistinni.
Semsagt - Tónlistardagar Dómkirkjunnar hefjast formlega þann 24. október og lýkur 14. nóvember. Það eru fleiri viðburðir en söngur Dómkórsins ég bendi á www.domkirkjan.is


Thursday, October 14, 2004

Birkið

Ég er spæld yfir að birkið er ekki í úrslitum í kosningum um þjóðarblómið. Ég vil nefnilega losna við öspina úr sumarbústaða löndum og hvetja fólk til birkiræktar. Þessi helvítis ösp er yfirgengileg. Fólk kemur meira að segja með margar metra háar aspir og plantar fyrir allt útsýni. Nei, birki skal það vera! Tekur reyndar lengri tíma í ræktun, en á það ekki bara að vera þannig.
Að sjá villt og grösugt sumarbústaðaland er dásamlegt, en þegar það er orðið allt vaðandi í ösp og sígrænu - ojbara.
Má ég þá biðja um kjarr, grávíði og útsýni!

Monday, October 11, 2004

Hebreska

Er einhver þarna úti sem getur hjálpað mér með hebresku.
Þetta er erfið saga - en ég verð að létta á mér.
Árið 1977 fórum við félagarnir i Menntaskólanum við Hamrahlíð til Ísraels. Þetta var sannkölluð ævintýraferð - umhverfið, menningin, landslagið og allir þessir staðir sem maður hafði lesið um.
Við vorum vitlausir menntskælingar - en samt fannst okkur eitt og annað afar óþægilegt svo ekki sé meira sagt. Ég gleymi ekki þegar við komum í yfirgefin bæ og leiðsögumaður okkar sagði:
"We told the arabs they could stay, but they just left" Einnig var einkennilegt að sjá hermenn á hverju götuhorni með alvæpni - okkur fannst þeir reyndar þokkalega sætir, hrokkinhærðu, brúneygðu hermennirnir sem stundum fegnu far með rútunni okkar. Við þurftum einnig að syngja í herstöð og aldrei held ég að við höfum sungið verr. Einnig tókum við þátt í samsöng með mörgum öðrum kórum og nú verður þetta erfitt. Eitt af verkunum sem við sungum var að ég held eftir einhvern ísraela. Textinn í verkinu hljómaði svona: "Ronni batsion, ronni ronni, ronni batsion, ronni ronni! Hariu israel hariu!
Batsion er væntanlega .....Zion
Nú langar mig og hefur lengi langað að vita hvað þessi texti þýðir. Mig grunar það að þarna höfum við verið að syngja Israel og Zionisma lof og dýrð og mér þykir sá grunur alveg hræðilegur.
Er einhver sem kann hebresku?

Tuesday, October 05, 2004

Gagnfræðaskóli

Ég sá um daginn gamla mynd af Ríó Tríói - ógurlega ungir og sætir. Helgi Pétursson kenndi mér í gagó - Þingólsskóla í Kópavogi - og við vorum rosalega skotnar í honum stelpurnar. Hann var ekkert lítið sætur, talsvert frægur, ágætur kennari og hinn skemmtilegasti. Hann gekk alltaf í rúskins klossum með kögri og það var alveg geðveikt flott. Hann hefur líklega verið lítið eldri en við krakkarnir. Og það voru fleiri kennarar í þessum gagnfræðaskóla. Einn er nú kennari á suðurnesjum, ágætis maður sem einnig var svaka góður dansari kenndi samkvæmisdansa. Hann sá seinna um vinsælan útvarpsþátt á rás tvö og þar bar fundum okkar aftur saman - hann kenndi tangó með trukki og dýfu. Svo var þarna litblindur poppari sem hafði verið í nokkrum vinsælum hljómsveitum og meðal annars sungið enskt lag með ísl texta.."fækkaðu fötum...etc.."
Svo var þarna kennari sem verið hefur sendiherra okkar á hinum ýmsu stöðum - held að hann sé hérna heima núna. Einn ömurlegur guðfærðinemi var þarna líka - klæddi sig ákaflega spjátrungslega - hann er núna prestur úti á landi og ég vona að ég eigi ekki eftir að hitt hann aftur á lífsleiðinni. Ég neitaði að fara í tíma til hans - það átti að reka mig úr skóla en ég var ágætis nemandi og foreldrar mínir stóðu þétt við bakið á mér. Úr varð að ég las íslandssöguna utanskóla það sem eftir var vetrar - og tókst að verða næst hæst að vori, þrátt fyrir að hafa ekki verið í tímum. Kennslubókin var hrútleiðinleg eftir Egil Stardal - en þrjóskan í mér hafði yfirhöndina.Þinghólsskóli var alveg nýr skóli þegar ég sótti hann - enda vesturbærinn í Kópavogi ákaflega barnmargt hverfi á þessum tíma. Barnaskólinn - Kársnesskólinn - var meira að segja þrísetin og þegar ég fór í gaggó byrjaði skóladagurinn klukkan 12:30 og við vorum að skrölta þetta heim um klukkan 18:00 - Það verða 30 ár næst vor síðan ég lauk gagnfræðaprófi - og haustið 1975 byrjaði ég í Hamrahlíðinni - og það haust var kvennafrídagurinn - ég hélt í saklausi mínu að leiðin væri greið hvað jafnrétti varðaði, en stutt þykir við vera komin þetta 29 árum síðar......

Friday, October 01, 2004

höggormur/guttormur

Eldir dóttirin var að husta á kristnifræðispólu í gær (utan skólatíma - ekki verkfallsbrot)
Hún vildi síðan ræða um þetta m.a. um það að maður yrði að taka ábyrgð á eigin lífi og hefði talsvert að segja sjálfur um hvernig líf manns yrði. Síðan vitnaði hún í kristnifræðibókina og tók dæmi úr Eden og af samskiptum Evu og guttormsins.....