Thursday, June 23, 2005

Síðasta helgi

Er svona að koma til eftir síðustu helgi - samkvæmislífið tók sinn toll. Fimmtudag brúðkaup, 17. júní var litli Ari Dignus Maríuson skírður heima hjá ömmu sinni - langafinn skírði og langamma hélt undir skírn. Niðrí bæ með þá yngir - ég er með klígju fyrir miðbænum á þessum degi. Við ráfuðum þarna um og heilsuðum manni og öðrum. Dótturinni tókst að komast í 3ja miða tæki á Lækjartorgi og var nokkuð sátt eftir það. Síðan var henni mútað með nammi og svona lítilli græju sem þú setur á tunguna og framleiðir fuglahljóð - og þá var hún sátt við að fara heim. Ég var orðin fótafúin eftir að hafa gengið á pæju skónum og mikið skelfing, skelfing var gott að setjast út í garð í kringum sjö, hálf ber, með lappir upp í loft og teyga ískaldan bjór - þeir urðu nokkur það kvöldið + hvítvín og fullt af góðum ostum.
Laugardagskvöldið var frábært!!! matarboð hjá heimspekingnum og siðfræðingum Bryndísi. Þarna voru pönkarahjón nr. 1, sköllóttur íþróttafréttamaður og kona hans meinatæknir hjá ÍE og svo við hjónin, pródúsentinn og fræðslufulltrúin. Maturinn var ótrúlegur!!!! Susi í forrétt og svo var grilluð keila og síðan grilluð langa. Hrísgrjón, salat, og köld sósa á barbie disk. Nammi nammi namm. Hrikalega mikið hvítvín drukkið - og aðalpönkarinn kom síðan með uppáhalds skoska viskiíð sitt í þrem mismunandi útgáfum þar sem reynt var að líkja eftir bragðinu eins og það var fyrr á öldinni.
Þetta var gaman til klukkan 04:00, ekki eins gaman daginn eftir....Þessi helgi verður öllu rólegri, það verður mest lítið gert. Sú yngri er að ljúka við reiðnámskeið og það verður sýning hjá henni á morgun í reiðhöllinni.....

Jón Magnússon ráðherra

Heyrði á Talstöðinni í morgun að á þessum degi hefði látist Jón Magnússon ráðherra. Jón var fæddur árið 1859. Árið 1926 var Jón þá á ferð með dönsku konungshjónunum þegar hann varð bráðkvadur. Margir telja að Jón hafi ekki notið sannmælis sem ráðherra og að nafni Hannesar Hafstein hafi hugsanlega verð meira áberandi á kostnað Jóns. En trúlega minnast fáir Jóns þar sem hann átti ekki afkomendur sem héldu nafni hans á lofti. Jón var afabróður mannsins míns - afi Gulla hét Sigurður Magnússon og var fyrsti yfirlæknir á Vífilsstöðum. Hann var fæddur 1869 og lést 1945. Hann giftist konu sér 23 árum yngri - Sigríði Jónsdóttur - sem var hjúkrunarfræðinemi frá Bíldudal og seinna formaður Kvennréttindafélags Íslands. Pabbi Gulla - Páll Sigurðsson fæddist 1917, sama ár og pabbi minn. Mæður okkar eru fæddar 1923 og 1926. Við vorum sein til barneigna hjónin, vorum nær fertugu en þrítugu þegar dæturnar fæddust. Þær eiga því ekki mikið af lifandi forfeðrum - mamma mín er sú eina sem er á lífi og verður 79 ára þann 26. júlí, hún á sama afmælisdag og Mick Jagger! Dætur okkar voru þó svo lánsamar að pabbi minn og tengdamamma voru á lífi þegar þær fæddust, þó svo sú yngri muni ekki eftir þeim. Dætur mínar og Gulla voru einu barnabörn Önnu Soffíu tengadamóður minnar og var hún ný orðin sjötug þegar sú eldri fæddist.
Það er ómetanlegt fyrir börn að eiga og kynnast öfum sínum og ömmum - mamma mín er víðáttu hress og er ómetanlegt fyrir þær að eiga hana að, en ég vildi svo sannarlega að allt væri fullt af öfum og ömmum í kringum þær. Því hvet ég alla til að eiga börn sín snemma á lífsleiðinni - með því gefið þið þeim tækifæri til að eiga samneiti við þá sem eru eldri og reyndari og muna tímana tvenna.

Thursday, June 16, 2005

Óhemju gangur í mér

Já það er ekki hægt að segja annað - ég er hálf vængbrotin eftir að sú eldri fór í Vindáshlíð í gær. Ekki var það nokkuð vandamál hjá henni að kveðja - en ég var döpur þegar rútan fór og sagði Gulla að mér liði eins og þegar hún byrjaði í skóla - einhver söknuður í manni þegar nýtt skref er stigið. Þetta er náttúrulega engin hemja - það eru nú takmörk hvað maður má láta eftir sér að teygja á naflastrengnum. Stelpan á eftir að standa sig vel - og svo er litla krúttið okkar heima og var dekrað við hana í gær. Hún er alsæl á reiðnámskeiði upp í Víðidal og kemur angandi heim eins og heilt stóð . Nú langar mig verulega verulega verulega í sumarfrí - ég stend sjálfa mig að því að vaka allt of lengi á kvöldin, ég get ekki misst af þessari dýrð sem er utandyra. Næsta ár ætla ég að reyna að komast í frí seinni part júnímáaðar.....

Tuesday, June 14, 2005

Litlar æfingabúðir

Minn dásamlegi kór hittist í Hveragerði til æfinga á laugardeginum. Ég læddist út úr bústaðnum svona rétt uppúr hálf tíu og var komin á söngmót hálftíma síðar. Við tókum góðan sprett í Brahms requiem - og þetta var hrein unun. Sólin skein og í hádegishlénu sátum við undir kirkjuvegg og snæddum og bulluðum. Klukkan 14:00 kom svo hinn einstaki og frábæri Kristinn Sigmundsson ásamt konu sinni og æfði með okkur þá tvo kafla þar sem er baritón sóló. Mitt fólk kom síðan og náði síðustu tónum æfingarinnar. Fórum og keyptum víði - Heggstaðavíði - til að búa til skjól í fjallinu bak við bústaðinn. Potuðum niður um 40 plöntum. Bjór í glas, snafs í staup, lamb í ofn, fólk í pott. Eftir miðnættið gegnum við síðan öll niður að Hvítá í dásamlegu veðri. Ég lagðist í mosann, hlustaði á fuglasönginn, niðinn í ánni, leik barnanna og hugsaði með mér að nær himnaríki væri ekki hægt að komast.

Viðskiptahugmynd

Fékk eina slíka um helgina - og ég verð örugglega rosalega rík þegar ég hrindi henni í framkvæmd.
Við vorum í sumarhúsinu um helgina og sú yngri var með ein 4 - 5 tuskudýr með sér. Eitthvað fannst henni föðurbróður sinn ekki umgangast dýrin af nægri virðingu; hann settist á þau, henti þeim í aðra stóla ef honum sýndist svo og tók þau upp á skottinu. Þá fékk ég þá snildar hugmynd að stofna dýraspítala sem gerir við tuskudýr sem rifna eða kemur saumspretta á. Ekki lifði þessi hugmynd lengi því ég áttaði mig á að þessi dýr eru flest svo vönduð að þau duga og duga og rifna ekki. Þá fékk ég brill hugmyndi! Ég ætla að stofna svona þérapíu miðstöð fyrir þau dýr sem sætt hafa ofbeldi. Ég gæti semsagt tekið fórnarlambið og eiganda þess í viðtalstíma og reynt að bæta fyrir skaðann. Einnig gæti ég boðið gerandanum að vera með - því augljóslega þarf hann líka lækningu. Ég held að besti staðurinn til að setja upp slíka stöð sé í Kaliforníu. Þar held ég að sé nóg af fólki með nægan tíma og fullt af pening sem mundi þiggja svona ráðgjöf. Við getum örugglega fengið inni hjá þeim sem hjálpa fólki að ættleiða hvali. Hvað segið þið? Haldiði ekki að það sé grundvöllur fyrir svona miðstöð?

Friday, June 10, 2005

Ammæli

Stuð hjá okkur í gær - bekkjarafmæli hjá Bryndísi. Hún verður reyndar ekki 10 ára fyrr en í ágúst, en reynsla síðustu ára hefur kennt okkur að það er eiginlega betra að halda upp á afmælið fyrirfram. Það þýðir náttúrurlega ekkert að halda afmæli í ágúst og oft hefur það dregist rosalega - langt fram eftir hausti.
Allaveg - þá langði þá stuttu (eða þannig - hún er mjög hávaxin og ekkert nema bjór og bein) að bjóða öllum bekknum - líka strákum, enda mikil strákastelpa og leikur sér talsvert með nokkrum þeirra. Þetta gekk vonum framar, börnin voru 15 og boðið upp á pylsur og pylsubrauð, gos, ís og tyggjó. Við stóðum lengi fyrir framan sælgætisrekkann í Bónus um daginn og reyndum að finna nammi sem ekki innihélt hnetur því einn bekkjarfélaga hennar er með lífshættulegt hnetuofnæmi. Við enduðum á tyggjói og svo var keppni í gær í kúlublæstri. en ekki tókst að grilla Þau átu, drukku og voru í stuði. Sum léku úti, önnur voru í sing star og sum horfðu á The incredibles og höfðu heimabíóið vægast sagt hátt stillt, tilhvers er líka heimabíó ef ekki má stilla allt í botn! Allir farnir heim um 22:00 og afmælisbarnið alsælt með yfir 4000 kr sem fara inn í banka. Þeir sem gáfu pening gáfu allir 500 - fínt að halda þessari reglu.

Thursday, June 09, 2005

Þungbúin morgun

Eitthvað er ég syfjuð og í litlu stuði. Búið að vera rosalega mikið að gera undanfarnar vikur en nú fer umferðarskólanum að ljúka hér í Reykjvík. Hafnarfjörður, Garðabær, Keflavík og Njarðvík búin og Kópavour klárast í þessari viku. Akureyri í næstu viku. Ekki láta ykkur detta í hug að ég hafi verið sjálf á öllum þessum stöðum - ég er skipuleggjarinn og reddarinn og sendillinn og svara ótal tölvupóstuum daglega, sendi boðsbréf, hef samband við Bjarkarás etc. Fór reyndar og kenndi í fjórum leikskólum í vesturbænum í gær. Var með Hildi Rún súper löggu. Það var rosalega gaman að kenna og þessi 5 og 6 ára börn eru dásamleg - móttækileg, fróð um umferðarreglur, vilja gera allt rétt, segja hryllingssögur af pöbbum og mömmum og frændum og frænkum. Í einum leikskólanna sat ég fyrir framan þau þegar myndin sem Felix Bergsson gerði fyrir okkur var sýndi og fylgdist með svipbrigðum - dásamlegt vægast sagt, gleði, spenningur, haka niðrá bringu, pínu hræðsla, og svo sungið með. Elsku blessuð börnin