Thursday, September 28, 2006

Á útleið

Fer til Köben klukkan 15:30. Á morgun fer ég til Hilleröð og námskeiðast með dönskum leikskólakennurum og læri allt um hvernig leikskóla börnum er kennt á umferð í Danaveldi.
Þetta verður ósköp stutt stopp en ég vona að ég fái fullt af góðum hugmyndum og efni með heim. Svo langar mig að hitta þennann frænda www.kontri.blogspot.com seinnipartinn á föstudag þegar ég kem aftur til Köben. Ég flýg síðan heim á laugardag og fer vonandi beint í sveitina mína. Annars er Gulli að senda út úrslitin í bikarleik karla í knattspyrnu og ef verður framlengt þá er svo sem aldrei að vita hvenær hann er búinn. Ja nema að ákveðið verði að klipp á framlenginguna og vítaspyrnukeppnina eins og gert var í kvennaleiknum - algjör skandall.....

Tuesday, September 26, 2006

Gott gott

Risin úr rekkju eftir helvítis veikindi! Háls og haus með leiðindi og svo verð ég ótrúlega döpur þegar ég er lasin. En allt er á uppleið.
Einn stór/lítill sólargeisli létti mér þó lífið. Ari minn Dignus kom og gisti hjá okkur aðfaranótt laugardagsins. Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Drengurinn sem er eins og hálfs árs núna er yndislegur. Nú er aðalmálið að dansa. Og sá dans gengur þannig fyrir sig að hann stendur í sömu sporum - rekur bossann út í loftið og dillar honum. Ótrúlega fyndið og sama hvaða undirspil er. Sálmasöngur dugði vel og sömuleiðis Disney lögin. Og það er nú ekki vandi að passa barn sem sofnar upp úr 21:00 og vaknar rúmlega 09:00. Svo er stelpurnar duglegar að passa hann og fóru með hann út að róla. Svo var sagt takk og vá og bæ og hæ og önnur augnabrúnin skaust upp á mitt enni þegar stíft var hugsað. Þetta gerði lang afi hans - föðurbróðir minn - einnig og það er mjög fyndið að sjá þetta á litla kallinum.

Thursday, September 21, 2006

Huggun harmi gegn

Í volæði mínu er ég að hlusta á þessa konu www.tonskald.blogspot.com
Hún er að velja fallegast á fóninn í útvarpi allra landsmanna. Hún var rétt í þessu að spila Te Deum eftir Arvo Part. Alveg hreint magnað verk. Dómkórinn söng þetta einu sinni undir stjórn föður Þóru. Ég þurfti að fara til Svíþjóðar ekki löngu áður en tónleikarnir voru og tók nótur með og disk til að hlusta á verkið í lestarferðum. Þá vildi ég vera kvikmyndagerðarmaður því þessi tónlist passaði alveg hreint ótrúlega vel við haustskógana í Svíþjóð og var eitthvað svo bíómyndaleg. Ég ætlaði að senda Friðrik Þór diskinn en fann hann ekki.Nú er það aría næturdrottningarinnar sem verður gaman að heyra í túlkun Ólavíu Hrannar þegar hún verður í hlutverki Florence Foster Jenkins í Þjóðleikhúsinu í vetur.

Vorkenna mér!!!!

Ég er lasin heima með hausverk og illt í hálsi. Mamma er sú manneskja sem ég vil helst tala við og láta vorkenna mér en ég næ ekki í hana. Hún er sjálfsagt úti í góða veðrinu. En þið getið vorkennt mér á meðan.....En mamma er best þegar svona stendur á, jafnvel þó ég sé komin á 49. aldursár.......

Wednesday, September 20, 2006

Aftur og nýbúin

Ég ætla að bregða mér aftur til Danmerkur. Fer til Köben eftir viku og gisti tvær nætur. Aftur á námskeið hja dönsku Umferðarstofunni. Í þetta skipti er þetta dagsnámskeið í Hilleröð. Ég gisti nú ekki alveg eins flott eins og fyrir viku því ég verð í "red light distric". En þægileg staðsetning..

Hvað er þetta eiginlega!

Er þetta aldurinn - mér finnst ég orðin svo væmin og farin að líka við ólíklegustu hluti.
Er það t.d. eðlilegt að hafa gaman af - og vera eiginlega mjög hrifin af - þegar Regína Ósk syngur Ljósanæturlagið? Og eitthvað annað álíka vellulegt?
Er það í lagi að finnast Guðlaugur Þór sympatískur? Ja náttúrulega í samanburði við keppinaut hans þá er hann það - en komm on!

Sunday, September 17, 2006

Börnin og buran

Buran sefur en ég og stelpur erum komnar á kreik. Ég og Anna ætlum í messu í Langholtskirkju. Það er liður í fermingarundibúningi hennar. Ég er búin að hneykslast nóg á fermingarbörnunum í Dómkrikjunni sem koma í skyldumessurnar og hálf sofa á öftustu bekkjunum eða eru á fullu í símum sínum í leikjum eða á sms. Ég hef reyndar verið hneyksluð á foreldruum að fara ekki með börnunum í messu þegar þau eru í fermingarundirbúningi. Svo að nú er komið að mér. Mér finnst að ef börn fermast á annað borð þá verði þau að vita um hvað málið snýst.
Sú yngri er að horfa á sjónvarpið og nýtur þess að tjill. Annars er hún orðin mjög skipulögð. Hún notaði tækifærið í bílnum bæði á leið upp í bústað og á leið heim fyrir heimanámið. Gerði verefni í ensku, íslensku og las í islam.

Frabært!

Nick Cave brást svo sannarlega ekki. Þetta voru rosalega kraftmiklir og góðir tónleikar og stemningin mögnð - enda gæinn magnaður. Bandið með honum var rosalegt, sérstaklega fiðluleikarinn. Forsetahjónin voru á staðnum, Dorrit sæt og æðisleg eins og alltaf og drakk gos úr dósinni. En allt í einu sá ég fyrir mér furðulega sýn. Þau hjónin komin heim á Bessastaði, Dorrit sparkar af sér stigvélunum og setur Cave á fullt í græjunum. Dansar á há glans parketinu á sokkunum og reynir svo að fá Ólaf til að dansa við sig við lögin Do you love me? og In to my a arms. Dálítið skelfileg sýn....

Friday, September 15, 2006

Átrúnaðrargoðið

Nú er rétt rúmur sólarhringur þangað til Nick Cave stígur á sviðið í Laugardalshöll. Mikið óskaplega hlakka ég til. Ég fékk miða á rosalega góðum stað enda var ég komin í netsamband eina mínútu eftir að miðsala opnaði í júní. Við ætlum í sveitasæluna í nótt og elda nautalund sem fékkst á ótrúlegu verði í Bónus. Mest hlakka ég til að fara í heitan pott. Ég er hrikalega þreytt eftir vikuna. Ég er líklegast orðin allt of gömul til að ferðast og þurfa að vaka á ókristilegum tímum. En guði sé lof fyrir helgar....

Thursday, September 14, 2006

Herragarðsfrúin snýr heim

Jæja - þá er ég komin eftir fínt námskeið hjá dönunum. Danskan var reyndar dálítið erfið; það gekk ágætlega að skilja fyrirlesarana, sérstaklega þegar þeir notuðu power point, en verra gekk að skilja hvað sagt var í hópavinnunni. Ég fékk fínar hugmyndir, fullt af efni og svona stuð sprautu.
Herragarðurinn var frábært - er víst í eigu danska kennarasambandsins. Þarna var stofa eftir stofu eftir stofu og allt með fallegum nýjum og gömlum dönskum húsgögnum. Og maturinn var sjúkur. Veðrið 18 - 20 gráður og sólskin. Getur maður beðið um eitthvað meira?
Það var þó eitt sem vantaði. Það var sama hvað ég gerði mig huggulega og hugsaði jákvætt - hann var hvorki á Strikinu né á Herragaðinum - herrann sem mig langaði að hitta.
Og hver er hann? Jú það er sæti gráhærði Olsen bróðurinn. Ég var einhvernveginn svo viss um að ég mundi hitta hann.......

Saturday, September 09, 2006

Tilbúin

Búin að henda tuskum oní tösku og er tilbúin að vakna klukkan 03:00. Fyrst þarf ég reyndar að fara að sofa. Ég fór með stelpurnar í dag í prufu vegna kvikmyndar sem Ari Kristinsson er að gera. Þar hitti Bryndís mótleikkonu sína síðan úr Stikkfrí en þær hafa ekki sést að ég held síðan á frumsýningu annan í jólum 1997. Bergþóra er orðin tvítug og útskrifuð úr menntó. Það var að sjálfsögðu tekin mynd í tilefni dagsins. Mikill spenningur - en það voru yfir 500 börn sem sóttu um og allir teknir í viðtal.....

Sloggi

Keypti mér magnpakningu af Sloggi brókum í vikunni. Djöfull er þægilegt að vera í svo stórum naríum að þær ná alveg upp að brjóstum. Skil ekkert í þessum g-strengjum. Strengir eiga að vera í hljóðfærum en ekki upp í rasskorum.

Friday, September 08, 2006

Sá á kvölina...

Ég er boðin í tvö partý á morgun. Fyrst ber að nefna árlegt freyðivíns bjóð þeirra mæðgna Sillu og Sigrúnar. Þar er alltaf rosagaman og þar hitti ég margar fyrrverandi samstarfskonur og við fíbblumst og flissum og syngjum og dönsum ef sá gállinn er á okkur. Síðan er Anna Sigga að bjóða þeim sem syngja í jarðarförum til gleðskapar. Þar verður án efa mikið gaman.
Svo fer ég í loftið klukkan 07:15 næsta morgun. Ég held ég haldi mig heima við þetta laugardagskvöld eins og flest önnur laugardagskvöld

Er komið haust?

Nei nei - bara smá fyrirvara verkir.....

Thursday, September 07, 2006

Herragarðsfrúin

Ég er á leið í Danmerkur á sunnudag. Ég er að fara á námskeið hjá dönsku Umferðarstofunni fyrir þá sem eru í umferðarfræðslu fyrir börn. Ég fer ásamt tveim kennurum úr Grundaskóla á Akranesi en sá skóli er móðurskóli í umferðarfræðslu. Við verðum eina nótt í Kaupmannahöfn en förum síðan út á Fjón og verðum hér http://www.gl-avernaes.dk/
Mér finnst þetta ægilega flott lókal og hlakka til að heyra hvað danirnir eru að gera í þessum málum. Þarna verða kennarar og löggur og fleira gott fólk, allt danir utan okkur þrjár.
En brottfarartíminn er hreint út sagt ægilegur! Í loftið klukkan 07:15

Wednesday, September 06, 2006

Námskeið

Ég er að hugsa um að skella mér á 10 tíma námskeið í "heimagítar" spili hjá Ólafi Gauk. Ég spilaði dálítið í gamladaga og fyrir 3-4 árum pantaði ég mér gítar frá fjöskyldunni í jólagjöf. Hef samt sama og ekkert spilað. Ég sá námskeiðið auglýst hjá Mími og þetta eru 10 tímar alls og kennt einu sinni í viku. Nú er mér spurn: Ætli endurmenntunarsjóður BHM borgi hluta af námskeiðinu. Ætli þeir fái ekki sjokk vegna fyrirspurnarinnar.....

Húsmóður annir

Ég er að sjóða grjónagraut, horfa á leikinn 0-2 er staðan núna og blogga. Best að fara að stónni og hræra í grautnum

Draumur

Í nótt dreymdi mig mann:
"Þetta er Grímur Gíslason sem talar frá Blönduósi"
Hvað skyldi þetta tákna......

Monday, September 04, 2006

Ný vinnuvika

Jæja - góð helgi liðin. Gerði ekkert á laugardeginum nema að hugsa um allt sem ég ætlaði að gera á sunnudeginum - hugsaði um óhreinatausfjallið sem ég ætlaði t.d. að klífa. Og merkilegt nokk - mér tókst að koma talsverðu í verk í gær. Fjallið hefur minnkað, ég fór í göngutúr, keypti mér 3 erikur og freistaðist í silkiblómin í Soldis og truttaði nokkuð vel til heima. Ég meira að segja straujaði talsvert af mér.
En ég sagðist ekki hafa gert neitt á laugardeginum. Það er nú ekki alls kostar rétt - ég las næstum heila bók, spjallaði við dóttur mína, kjaftaði í símann, lagði mig etc....

Sunday, September 03, 2006

Get ekki sofið

Klukkan er tíu minútur í fimm og ég ekki sofnuð - næ ekki ró. Búin að glápa á tvær spennumyndir, lesa Fréttblaðið aftur, sunnudagsmoggann á netinu, byrjaði að horfa á Hótel Ruwanda. Hef séð þá feikigóðu mynd áður og veit að hún færir mér ekki ró. Ætla að gera aðra tilraun. Bona notte.....

Önnur mynd

Reyndar er að byrja mynd á Sirkus - þar eru Michell Pfeifer og Harrison Ford. Ekki beint ófríð heldur....

Kvikmynd

Ég var að horfa á Angeliu Jolie og Denzel Washington í sjónvarpinu. Ætli þau séu fallegasta fólk í heimi?

Saturday, September 02, 2006

Bók og bollur

Ég er að lesa alveg sérlega skemmtileg bók sem heitir Náunginn í næstu gröf og er eftir sænskan höfund. Í bókinni gegna sænskar kjötbollur ákveðnu hlutverki. Undanfarna daga, löngu áður en ég byrjaði á bókinni, hef ég verið gripin sterkri löngun í steiktar kjötbollur.Það er gaman að búa til bollur út góðu hakki en talsvert meiri vinna en að steikja bollur úr kjötfarsi. Að ekki sé talað um hvað heimatilbúnu bollurnar eru mikið betri. Það hefur verið eitthvað rugl á kvöldmatnum þessa vikuna og ekki alltaf allir að borða saman svo að eg hef frestað nokkrum sinnum að búa til bollurnar. Ég vil hafa alla heima, gera margar bollur, steikja amerísku hrísgrjónin með og hafa góða sósu og sultu.
Nema hvað að við lestur bókarinnar þá magnaðist þessi kjötbollu löngun alveg rosalega. Áðan fór ég síðan í Bónus og hvað haldið þið að ég hafi keypt? Tilbúnar Bónus kjötbollur. Þær verða semsagt í matinn í kvöld. Ég er komin dálítið langt frá góðu hakkbollunum mínum ekki satt. Við erum bara tvær heima til morguns ég og sú eldri því Gulli, Bryndís og Siggi mágur fóru austur í bústað að mála . Anna er lasin með mikið kvef og hæsi.
Semsagt notalegt kvöld í vændum með upphituðum kjötbollum úr Bónus. Þetta held eg að verði sá daprasti laugardagsmatur sem hugsast getur.....ég gef skýrslu á morgun

Matur

Ég var að enda við að borða frosið skyr

Friday, September 01, 2006

Af útvarpshlustun í morgun

Það var dásamlegt að vakan í morgun. Ég vissi að ég þyrfti ekki að flýta mér í vinnuna og allt var í ró. Heyrði í dætrunum sýsla í eldhúsinu. Svo kveikti ég á útvarpsfréttum klukkan átta og lét fara vel um mig undir sæng. Jæja þá byrjaði það. Fyrst var það Davíð Oddsson sem sagði hrokafullur að umræðan um skýrslu Gríms væri fáránleg og að iðnaðarráðherra gæti ekki lesið allar skýrslur og strikað undir aðalatriði. Eftir frétti var viðtal við Ólaf Oddsson íslenskukennara (bróður Davíðs) sem sagði að íslensk ungmenni væru á rangri braut því þau kynnu ekki íslensku og að gömlum góðum gildum væri varpað fyrir róða.
Eftir hálf níu frétta yfirlit þá tók Björn Malmqvist í USA við og fjallaði um fundar herferð Bush til að réttlæta stríði í Írak. Þar mátti heyra í Bush sjálfum, Rumfsfelld og Dikk Tjeiní.
Hvað er hægt að leggja mikið á eina manneskju á rúmum hálftíma.
Ég æstist og spenntist öll upp við að hlusta á þessi ósköp og það varð til þess að mér tókst að setja í tvær vélar og í þurkara og að flokka fjall af óhreinum þvotti áður en ég fór í sturtu og til vinnu. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.