Tuesday, January 30, 2007

Aumingjagangur

Er þetta ekki toppurinn á aumingjaganginum í mér: ég á tvær dætur og hafði ekki döngun í mér til að fara með þær á afmælishátið Kvenréttindafélgasins - jafnvel þó svo að langa amma þeirra hafi eitt sinn verið formaður.....

Thursday, January 25, 2007

Sá svarti bankar

Hundurinn - nú vill hann inn. Það eru þó ekki mikil læti en ég finn að hann langar. Ég finn líka að ég hef meiri kraft en oft áður til að meina honum inngöngu.
Fyrir akkúrat tveim árum lagði hann mig í rúmið í heilan mánuð og það má ekki koma fyrir aftur. Hann reynir þó.
Mörg góð ráð hef ég fengið; margir vilja meina að ég eigi að fara með hann í sund eða út að ganga. Jú jú - ég er til í það en stundum þá meinar hann mér að fara framúr rúminu og þá verður nú lítið um ferðir út úr húsi. Þá er maður ofsalega fegin að komast bara í sturtu.
En ég ætla ekki að láta undan núna.

Saturday, January 20, 2007

Undarlegur andskoti

Þessi dagur var slíkur. Ég á það til að vakna stundum svo gjörsamlega uppgefin að ég get hvorki hreyft legg né lið. Í dag var einn slíkur dagur. Ég fann reyndar í gærkvöldi að ég var óvenju þreytt. Við hjón komum heim klukkan 22:00 - Gulli úr vinnu en ég frá að passa Ara minn ljúfastan. Ég fór næstum beint í rúmið og svaf eins og slytti. Heyrði að Gulli var að ræsa þá yngri uppúr hálfátta til að fara að keppa í hanbolta. Mér tókst að komast niður og kyssa barnið og knúsa. Næst farmúrferð var til að keyra Gulla til vinnu. Ég fór og horfði á barnið og félaga hennar keppa og eftir stutta vinnu stund upp á RUV þá komst ég heim og var sofnuð innan stundar. Nú þarf ég aftur á móti að fara að ráðskonu rassast í Loftkastalanum. En þar verð ég búin um tíu í kvöld.
Ég er fegin þegar þessir svefn dagar lenda á frídögum en ekki á vinnudögum.

Friday, January 19, 2007

Geisladiskar

Það voru aðeins tveir diskar sem komu upp úr jólapökkunum í ár. Johnnt Cash og Þjóðlög Ragnheiðar Gröndal. Gætu varla verið ólíkari en báðir frábærir.
Með hana Ragnheiði - hún er ótrúleg. Þessi dásamlega rödd og mikið músíkalítet - allt gert af einstakri smekkvísi. Það sem mér finnst þó standa uppúr er hversu ótrúlegum tengslum hún nær til texta laganna sem hún syngur. Ekki bara á þessum disk heldur í allri tónlist sem hún syngur.
Gæti verið að Blástjarnan sé fallegasta íslenska þjóðlagið?

Svona var ég kvödd af unglingnum í morgun

"Mamma - þú ert æði.is - Vertu sæl"

Thursday, January 18, 2007

Þorrablót Bolvíkinga

Eftirfarandi stal ég af vef Höllu Signýjar og finnst gott innlegg í umræðuna um þorrablótið í Bolungarvík:

Mynd úr Víkinni.
Inga er 54 ára Bolvíkingur og er fædd og uppalin hér í Víkinni. Foreldrar hennar fóru alltaf á þorrablótið því þetta var aðalskemmtun ársins þá líkt og nú. Seinna þegar systkini hennar hófu sambúð fóru þau að fara og allir höfðu jafn gaman af. Inga hefur aldrei verið í sambúð en á tvær dætur sem eru nú orðnar gjafvaxta og önnur í sambúð og ætlar á komandi þorrablót. Inga hefur alltaf tekið virkan þátt í félagslífi er í kvenfélaginu og hefur þar setið í stjórn, driffjöðrin í slysavarnarfélaginu og er virkur þáttakandi í öllu því sem gerir mannlífið í Víkinni fallegra og betra.Hún hefur svo sem ekki gert sér grillu út af þessu þorrablóti en samt! Hún á nú oftast vinkonu í nefndinni sem bíður henni alltaf á lokaæfingu svo hún getur notið skemmtiatriðanna sem alltaf eru settar fram af miklum metnaði og mikið lagt í.Inga ætlar að bjóða í mat vinum og kunningjum sem hún veit að fara ekki á blótið enda ekki seturétt.
Gestalisti Ingu lýtur svona út.

Guðrún, hún missti mann sinn fyrir tveimur árum eftir 30 ára hjónaband, þau fóru alltaf á þorrablótið og var eiginlega þeirra eina skemmtun svo hún getur ekki fengið af sér að mæta og vera “stök” alltof margar minningar.

Jóna, hún skildi í maí á síðasta ári, var í nefndinni síðast og búin að vera á 10 þorrablótum. Hún er frekar fúl yfir þessu, en má ekki fara. Fyrrverandi maðurinn hennar náði sér fljótt í nýja konu og mætir því galvaskur á blótið í fullum rétti.

Gulli, er bróðir Ingu, hann er þroskaheftur og býr í Hvíta húsinu. Hann hefur mjög gaman af því að fara á mannamót og mætir alltaf á pöbbinn um hverja helgi til að spjalla við fólkið. Hvers manns hugljúfi.

Stefanía yngri dóttir Ingu, hún er einstæð móðir og vinnur í Bakkavík.

Karl er 30 ára, er íþróttakennarinn á staðnum, samkynhneigður en ekki í sambúð, en á kærasta í Kópavogi.

Róbert, fráskilinn myndalegur karl á sextugsaldri, Inga er nú að vonast til að hann og Guðrún fari nú að taka betur eftir hvort öðru sem kannski leiðir til þess að þau ná þátttökurétti og þeirri stöðu í samfélagi Bolvíkinga að þau verði nógu rétthá til að vera velkomin á Þorrablót Bolvíkinga.

Tuesday, January 16, 2007

Trans

Ég er í transi eftir hádegismatinn hér í vinnunni. Það var alveg hrikalega góður steinbítur. Marineðaður í hvítlauk og einhverju fleiru. Settur í ofn með strengjabaunum. Og ótrúlega góð brún hrísgrjón með. Þetta kemur víst frá Kokkunum.........

Sunday, January 14, 2007

Babel

Það er verið að sýna úr nýju myndinni Babel eftir mexíkóska leikstjórann sem ég kann ekki að nefna. Mikið hlakka ég til að sjá myndina því ég hreifst af Ástum og hundum og 21 grams eftir þennan sama leikstjóra.
Amores perros var svo sannarlega óhugnanleg en um leið sérlega heillandi. Frábær leikur - það sama má segja um 21 grams. Mæli með þessum myndum fyrir þá sem ekki hafa séð þær.

Góð ráð frá 1950

Ég stal þessu frá Hugskoti - síðan ég las þetta fyrir mörgum árum hef ég haft eftirfarandi að leiðarljósi:

1. Hafðu kvöldmatinn tilbúinn á réttum tíma. Það veitir honum þá tilfinningu að þú hafir verið að hugsa um hann og að þér sé annt um þarfir hans. Flestir karlmenn eru svangir þegar þeir koma heim og tilbúinn matur er hluti af því að láta hann finna hversu velkominn hann er heim, en það er karlmönnum nauðsynlegt.

2. Notaðu 15 mín. til að snyrta þig og skipta um föt áður en hann kemur. Hann er að koma heim úr leiðinlegri og erfiðri vinnu og er þreyttur. Vertu svolítið hress og skemmtileg til að hressa hann við.

3. Taktu upp allt rusl og dót. Farðu eina umferð um húsið og safnaðu saman skólabókum, leikföngum, pappírsrusli og blöðum. Renndu svo tusku yfir borðin til að þurrka af og þrífa svolítið. Eiginmanni þínum mun finnast hann kominn í friðarparadís og það hefur mikið að segja fyrir hann.

4. Snyrtu börnin til. Það tekur aðeins nokkrar mínútur að þrífa hendur og andlit og greiða þeim. Ef þarf, skaltu láta þau skipta um föt. Þau eru hans fjársjóður og hann vill sjá þau þannig.

5. Sjáðu til þess að húsið sé hljóðlátt. Slökktu á öllum vélum, s.s. uppþvottavél, þvottavél, þurrkara og ryksugu. Reyndu að sjá til þess að börnin hafi hljótt. Taktu á móti honum með glöðu brosi.

6. Gættu þess að hella ekki yfir hann kvörtunum þegar hann kemur. Ekki heldur kvarta þó hann komi of seint í mat. Þú getur verið viss um að þínar kvartanir eru minniháttar í samanburði við það sem hann hefur þurft að þola yfir daginn.

7. Sjáðu til þess að hann hafi það þægilegt. Láttu hann halla sér aftur á bak í hægindastól eða stingdu upp á því að hann halli sér smástund í rúmið. Vertu tilbúinn með kaldan eða heitan drykk handa honum. Bjóddu honum að klæða hann úr skónum og hagræddu púðunum undir honum. Ræddu við hann með rólegri, mjúkri röddu. Leyfðu honum að slaka á.

8. Láttu hann ráða kvöldinu. Ekki kvarta þó hann fari ekki með þig út að borða eða á aðrar skemmtanir, reyndu í stað þess að skilja að hann hefur fengið sinn skerf af streitu og látum yfir daginn og þarfnast hvíldar heima.

10. Markmiðið er að gera heimilið að stað þar sem eiginmaður þinn getur fundið frið og reglu og getur slakað á eftir erfiðan dag.

Skrýtin helgi

Hingað var hringt klukkan hálf ellefu á fötudagskvöldið. Það var Dídí sem býr á móti mömmu í blokkinni -reyndar fermingarsystir hennar að vestan og einn af þessu góðu nágrönnum. Það hafði kviknað í blómaskreytingu hjá mömmu og í fátinu hafði hún tekið brennheitan diskinn upp og fór með í vaskinn.Ég brenndi í Kópavoginn og sótti hana. Upp á slysavarðstofu komi í ljós að hún var með 2. stigs bruna á nokkrum stöðum á hægri hönd og tveim-þrem fingrum á vinstri hönd. Hinir fingur og hendur með 1. stigs bruna. Við vorum upp á slysó til að verða hálf tvö og hún fékk fyrsta flokks umönnun þar. Kvalirnar voru svo miklar að hún þurfti morfín. Það fór svo illa í hana að þegar við komum heim til hennar varð hún illilega lasin. Einhvernvegin leið nóttinn hjá okkur en strax næsta dag varð hún hressari. Ég var hjá henni fram eftir degi, bróðir minn kom síðan og svo gistu Bryndís mín og bróður dóttir hjá henni liðna nótt. Það er huggun harmi gegn að búið var að segja henni að fyrstu tveir sólarhringarnir yrðu erfiðir vegna kvala, en hún hefur ekkert fundið til síðan hún búið var um hendurnar. Ég var hjá henni áðan og hún er öll að hressast.
Í gær borðaði ég síðan með yndislegum vinkonum og fyrrum samstarfskonum úr Sjónvarpinu. Dásamlegur matur og allr svo yndislegt. Það var svo sannarlega gott að slaka á eftir það sem á undan hafði gengið. En mikið rosalega er ég búin að vera þreytt í dag og hef ekki haft orku til eins né neins. Horfði á Dumb and dumber með þeirri eldri - enn og aftur gat ég dáðst af þeim kumpánum. Svo er ég núna að horfa/hlusta á Kolbein Bjarnason spila AHS, Hafliða, Mozart og Bach.
Vinnuvika framundan og margt spennandi. En ég þarf líka að sinna henni mömmu minni.

Friday, January 12, 2007

Litli trommuleikarinn

Nú er Bryndís komin í pásu frá saxafóninum og komin í nám í slagverki hjá Tónskólanum. Það var eitthvað óyndi komið í hana vegna saxans og það opnaðist pláss um áramótin.
Í gær kom svo nágranni okkar hann Siggi með sneril til að lánahenni og búið er að kaupa kjuða. Nú er beðið eftir fyrsta tímanum sem er á þriðjudag. Bætist aðeins við skutlið því við þurfum að fara með hana upp í Hraunberg - en það reddast....
Hún velur sér ekki beint hefðbundin stelpu hljóðfæri eða stelpu íþróttir. Karate og slagverk - en það skiptir hana engu

Sunday, January 07, 2007

Allt í plati

Maðurinn minn á það til að segja mér einhverjar bullsögur af fólki. Sérstaklega þegar ég spyr frétta úr Efstleitinu þá á hann það til að fabúlera eitthvað.Hann nær mér stundum en ef ég horfi á hann þá veit ég alltaf þegar hann er að bulla því svipurinn kemur upp um hann.
Á föstudag þá byrja að pumpa hann hvort ekki séu neinar fréttir af fólki. Nei að var ekkert sérstakt að frétta nema að Magni væri skilin við kærustuna sína.Já já -ha ha ha - ég ætlaði nú ekki að láta ljúga því að mér. Það fyrsta sem ég las í Fréttablaðinu á laugardaginn var um þessi sambandsslit.
Hann er nú búin að vera með mömmu í símanu í a.m.k. hálftíma og lóðsa hana í gegnum DVD tækið. Hún er ekki alveg með þessa tækni á hreinu. Það er alveg klárt að ég hef ekki þessa þolinmæði.

Allt búið

Jæja -þá fóru jólin niður í kassa í dag. Gekk bara vel og allt hreint og strokið á eftir. Fyrir kvíðakassa eins og mig þá hefur það gerst að ég hef kviðið jólunum því ég kvíði fyrir að taka þau niður. Ekkert slíkt þessa daga.

Einhver óróleiki

Ég get ekki sofið. Við hjón og kisa erum stelpulausar. Þær eru búnar að vera hjá ömmu sinni i dag - hjálpuðu henni að taka niður jólin, lásu, prjónuðu og borðuðu svo það besta í heimi: grjónagraut hja ömmu. Eitt örlítið andartak datt mér í hug að gaman væri að kikja í bæinn. Það var mjög stutt andartak.
Við gláptum á allar þrjár myndirnar í kvöld og mér þótti þær allar skemmtilegar þó ólíkar væru. Eg gat hlegið að unglingavitleysunni, Taggart brást ekki og svo var góð dönsk mynd í lokin.
Ég er að lesa Tryggðarpant Auðar Jónsdóttur og hef gaman af. Hef ný lokið við að lesa Þriðja táknið og eftir þann lestur held ég að ég þurfi ekki að lesa nýju bókina hennar Yrsu.
Mikið djöfulli verð ég reið þegar Bush opnar munninn - eða bara yfir höfuð þegar ég sé hann eða dettur hann í hug. Nú er komin tími til að stopp fjandann og ég vona svo sannarlega að nýja þingið megni að stöðva enn frekari peningastreymi til Íraks. En finnur hann þá ekki bara aðrar leiðir þannig að hann fái pening án þess að fara í gegnum þingið?

Monday, January 01, 2007

Nýtt ár

Gleðilegt ár elskurnar mínar!
Hér var stuð og fjör í gær og mér fannst skaupið skemmtilegt. Í Litlugötu söfnuðust íbúar og aðrir nágrannar saman og skutu upp í gríð og erg. Þetta er skemmtileg hefð hér í götunni -allir saman. Síðan er flakkað á milli húsa. Við byrjuðum hjá Elfu og Einari hér við hliðina á okkur. Þar var spilað á píanó og bassa og ég fékk að taka númer. Síðan lá leiðin til Svenna og Auðar á endanum og þar var dansað við Abba - ungir og gamlir. Ég endað hjá Baldri og Finnu Birnu og var þar til klukka að verða 06:00. Sko mína - þetta getur hún enn. Ég er hálf rám enda má segja að ég hafi verið í leysingum (lesist: talaði mikið) á síðasta staðnum.
Nú ætla ég að trutta til hér heima- hér er confetti út um allt og svo að taka það rólega. Við erum sem betur fer öll í fríi á morgun.