Monday, September 27, 2004

Sumarið 1986

Sumarið 1986 var ég við nám í Íþöku í New York fylki. Ég var þar að læra sjónvarpspróduktsjón og til að flýta fyrir mér þá ákvað ég að taka sumar kúrsa til að geta útskrifast vor 1987. Þetta var fínt, þetta voru 2 tímabil 4 vikur hvort að mig minnir og tvö fög á hvoru tímabili. Ég tók kúrsa í vísindaskáldsögum (hafði aldrie lesið slíkar sögur fyrr), í almannatengslum, einhvern handrita kúrs tók ég og svo....já og svo tók ég kúrs í James Bond. Við horfðum á allar myndirnar, stundum 2 á dag, skiluðum verkefnum, vorum í umræðuhópum og skrifuðum langar og vísindalegar ritgerðir um allt sem snéri að Bond: óvinina í myndumum, konurnar í lífi hans, tálkvendin, Moneypenny, komma gríluna, húmorinn, aksturinn, gimmikkið, samband hans við M ofl. o.fl.
Þetta var semsagt hið best sumar - James Bond, vísindaskáldskapur, sól og gott veður, gay diskóið með Chris og Garry vinum mínum þar sem við dáðumst að afturendum karlpeninganna og vorum stundum sammála og stundum ekki, bíó á þriðjudögum því þá var miðinn ódýrari - barinn okkar The Ritz þar sem við vorum í vinfengi við Cyndi sem þar afgreiddi og hún geymdi alltaf síðustu sjússana úr gin og vodka flöskunum fyrir okkur því það var þannig á þessum bar að síðustu sjússarnir úr flöskunum voru ókeypis.......Svona var nú stúdenta lífið þetta sumarið - þegar ég svo útskrifaðist voru semsagt 3 af þessum 121 punkti sem ég lauk vegna James Bond.
Nú horfi ég á allar Bond myndirnar á sunnudagskvöldum og þær eldast nú svona og svona.....

Thursday, September 23, 2004

Sparifé

Nú langar yngri stelpuna mína að taka út þá nokkra þúsundkalla sem hún á á bankabók til að kaupa sér Play Station. Það eiga "allir" slíka græju. Er þetta ekki rosalega skemmtilegt - bæði fyrir fullorðna og börn? Við foreldrar erum ekki á því að hún fái að eyða því litla sem hún á á banka og minnum á að jólin séu ekki langt undan. Næst vill hún örugglega selja þau hlutabréf sem hún á í Eimskipafélaginu, en þau voru keypt fyrir þau laun sem hún fékk þegar hún lék í kvikmynd 2ja ár gömul. Ekkert Rutar Reginalds dæmi hér! Hún hefur nú samt talað um að þann pening ætli hún að geyma þar til hún fer til útlanda að læra - ekki er ráð nema í tíma sé tekið......

Monday, September 20, 2004

Tónlist

Ég er að vona að okkur takist að ala dætur okkar upp í góðum tónlistarsmekk. Alla vega eru þær farnar að biðja um Nick Cave eftir að pabbi þeirra keypti DVD með myndböndum hans. En þær vita líka hvað stelpurnar í Nylon heita og ég fæ oft þessar spurningar hver mér þyki syngja best af þeim og hvaða laga mér finnist flottast og hver sé sætust og almennilegust.....Eldri dóttir mín kom heim af kóræfingu um daginn og stundi upp að hún yrði að fá Sing Star - hún væri svo ógurlega þreytta af þessum sálmasöng daginn út og inn - tekið skal fram að kóræfingar eru tvisvar í viku og fleira æft en sálmasöngur!
Hún Anna mín hefur verið viðloðandi kóranna í Langholtskirkju frá því hún var 4 ára og byrjaði í krúttakór Langholtskirkju - nú er hún 11 ára og er komin í Graduale Futuri. Ekki hefur mér tekist að finna íþrótt fyrir hana að stunda, það er búið að reyna badminton, frjálsar, fimleika...við vorum að hugsa um krakkablak en þá stangast það á við kóræfingar. Hún þarf á því að halda að hreyfa sig meira, hún er dáldlið löt blessunin og finnst lífið stundum dáldið erfitt
Hún er rosalega lesblind og reikniblind og hefur hingað til ekki getað lært á klukku eða lært á peninga - og sama hvað maður sýnir henni oft takkana til að hækka og lækka á fjarstýringunni - það er alltaf eins og maður sé að sýna henni þetta í fyrsta sinn. Svo hefur hún orðið utanveltu í bekknum og það hefur gengið svo langt að einu sinni var henni einni ekki boðið í afmæli bekkjarsystur. Sem betur fer komst kennarinn að þessu í tíma og gat talað við mömmu afmælisbarnsins. Skólinn hennar viðurkennir þetta ekki sem félagslegt einelti og ég er afar ósátt við það - sagði mig meðal annars úr foreldraráði skólans vegna málsins. Eins hafa þær ignorerað hana og svara henni ekki þegar hún talar við þær. Óþolandi. Hún er nú samt að jafna sig á þessu, en guð minn góður hvað hún grét í fyrra þegar þetta var sem verst. Núna er hún miklu rólegri yfir þessu, en þetta virðist ætla að vera eins í vetur í s.l. vetur - engin spyr eftir henni og engin hringir í hana og ef hún biður einhverja bekkjarsystur að leika þá er það ekki hægt - skrýtið að sjá þær svo ganga með öðrum stelpum heim. Eins skilur hún ekkert í því hvaða þær þurfa mikið að læra - líka meira að segja á föstudögum! Það kom til umræðu hvort hún vildi fá GSM síma - nýjan eða notaðan því allar í hennar bekk eru með síma. En hún taldi enga þörf á því - það hringir hvort eða er aldrei neinn í mig, sagði hún. Hún fór að sækja fundi hjá KFUK í fyrra og það gerði henni rosaleg gott og þar voru samskipti með eðlilegum hætti.Hún fór síðan eina nótt í Vindáshlíð og það var mjög gaman - hennar herbergi vann í hárgreiðslukeppninni og hún var módelið - enda með gullfallegt rautt hár niðrí mitti.Hún gengur með leikkonu drauma í maganum og fór á námseið hjá Möguleikhúsinu í sumar. Nú grætur hún af því hana langar svo að prófa sig fyrir söngleikinn Oliver! sem sýna á á Akureyri um jólin. Hún sagðist vilja fara í prufu bæði af því að hún gæti og vildi leika og svo færu kannski stelpurnar í bekknum að taka eftir henni....... Námið gengur þokkalega - hún er sem betur fer með spólur eða geisladiska í lesfögum og það hjálpar alveg rosalega. Hún fylgist síðan með textanum á bókinni. En hún þarf hjálp við allt heimanám og gerir ekkert án aðstoðar. Þetta er búina að vera gríðarlega vinna undanfarin ár, en henni fer stöðugt fram og það eru laun erfiðisins. Svo er hún mjög áhugasöm um að standa sig vel og sérlega samviskusöm og aldrei vandamál að fá hana til að vinna heimavinnu. Anna teiknar vel og hefur frá því hún var smástelpa haft gaman af náttúrufyrirbrigðum og dáist að öllu fallegu í náttúrunni. Hún er frekar saklaus og barnaleg og má ekkert aumt sjá. Þeim kemur afar vel saman systurum henni og Bryndísi sem er tveim árum yngir og þó að Bryndís sé komin framúr henni á mörgum sviðum - þá er Anna eldri og það fer ekkert á milli mála.

Monday, September 13, 2004

Matur, matur, matur

Í sumar þegar við vorum á Ísafirði var húllum hæ á Silfurtorginu. Þar var tónlist, verið að selja mat og ýmislegt annað t.d. matreiðslubók (fjölritað hefti) sem konunrnar sem vinna á sjúkrahúsinu höfðu tekið saman . Í þessari bók eru 52 kjúklingauppskriftir. Frá bærtnúna þegar kjúklingar kosta minna en pylsur. Ég prófaði eina um helgina, bringur með beikoni, sveppum, sólþurkuðum tómötum o.fl. Þannig háttaði til að ég átti beikon sem keypt var á Kastrup flugvelli, og þvílíkur munur! Ekki þessar næfur þunnu sneiðar sem hægt er að lesa í gegnum, heldur gæða sneiðar og pannan ekki fljótandi í vatni á eftir. Ég bauð líka upp á beikon og french toast morguninnn eftir - skolað niður með Bónus safa með aldinkjöti - tær snilld....

Friday, September 10, 2004

Hlakka til

Ég er búin að fá mér tvo miða á Marianne Faithfull og hlakka rosalega til. Tónleikarnir eru 11 nóvember á Broadway. Ég varð fyrir vonbrigðum með að þeir hefðu verið fluttir frá Háskólabíói því mér leiðist Broadway alveg hroðalega, en það er bót í máli að stólum verður raða eins og í tónleikasal, en ekki setið við borð, þannig að ef við komum tímanlega þá er von til að fá góð sæti.
Nú ætla ég að hlusta á Faithfull alla helgina

Wednesday, September 08, 2004

Sveitasæla

Ég bloggaði ekki frá Aþenu en héðan úr sveitasælunni er tilvalið að blogga. Í dag sá ég Forrest Whittaker leikarann heimsfræga (sögðu þeir á stöð 2 áðan) hann var svona 3 metra frá mér. Myndarlegur maður og fullvaxinn. Og ógleymanlegur úr The crying game. Á föstudag koma hingað Tjabbe, Sylvia og ríkisarfi Svíþjóðar svo það má segja að um mig blási vindar þeirra frægu og konungbornu. Forrest er reyndar farin og ég verð farin þegar þau sænsku koma, but so what.
Hvernig var kokkteillinn með konungi Þórdís?

Monday, September 06, 2004

Texta vantar

Á mínu heimili er Quarasi í dálitlu uppáhaldi. Í fyrra sungum við með Mess it up og nú er það Stun gun. Það versta er að við heyrum ekki alveg hvað sagt er í viðlaginu. Two times....when we ...the bones. Getur einhver hjálpað okkur svo við getum setta allt í botn og sungið með. Þetta er frábært lag og við erum dáldið asnaleg i þessu textaleysi

Sjónvarp

Ég horfi talsvert á sjónvarp - kannski helst til of mikið. Ég á það til að detta oní framhaldsþætti og svo hreinlega verð ég að horfa á hvern þátt. Ég hef t.d. séð alla ER þættina, þó svo ég hafi verið á kóræfingum á miðvikudögum undanfarin 9 ár. Nú sé ég að það er fullt af þáttum að byrja aftur á skjá einum, og þá verður nú lítið úr kvöldunum hjá mér. Arrrrg.
Ég hef verið húkkt á Practice undanfarin ár og er rosalega fegin að vælukjóinn Bobby og konan hans með titrandi höku skulu vera hætt. Mér finnst James Spader vera alveg hreint ómótsæðilegur í nýjustu þáttaröðinni. Mér hefur hingað til fundist hann sætur strákur en núna er ég hreint og beint hryllilega skotin í honum. Almáttugur minn!

Saturday, September 04, 2004

Minningar

Í morgun báðu dætur mínar um "brunch" í morgunmat. Hjá þeim þýðir brunch það sem amríkanar kalla french tost (er þetta rétt skrifað) þ.e. brauð sem velt er uppúr eggi sem blandað er með mjólk og síðan steikt á pönnu og borðað með hlyn sírópi. Alveg gasalega gott og skemmtileg tilbreyting svona stöku sinnum um helgar.
Ég kynntist þessum morgunmat þegar ég var lítil stelpa og dvaldi oft á Laugarvatni hjá Jóhanni föðurbróður mínum og konu hans Winston. Winston var fædd í Amríku, að ég held í suðurríkjunum en kynntist Jóhanni þegar þau stunduðu nám við Berkley háskóla í Kaliforníu. Síðan bjuggu þau hjón í Íþöku þar sem Jóhann vann við íslenska bókasafnið við Cornell háskóla.
Það var allt öðruvísi andrúmsloft á Laugarvatni en annarstaðar, þarna blésu erlendir vindar og töluð enska á heimilinu. Skólameistarahúsið á Laugarvatni er stórt hús og það var afar gestkvæmt hjá þeim hjónum yfir sumartímann. Bæði voru það ættingjar Winston frá USA og síðan vinir þeirra og vinir vina þeirra. Þarna var líka Eddu hótel og gaman fyrir stelpu skottur að sjá öðruvísi fólk og heyra öðruvísi tungumál. Þarna var ég mörg sumur, bæði með foreldrum mínum og síðan ein hjá þeim hjónum. Og þarna kynntist ég elduðum morgun mat. Winston bauð upp á skrömbluð egg, french tost, beikon, pönnukökur, appelsínusafa, heimabakað brauð og gott kaffi og te. Þetta fannst mér alveg stórmerkilegt, að koma á fætur og vera spurð hvað ég vildi í morgunmat! Að heiman var ég vön því að fá hafragraut og ristað brauð. Mig grunar að Winston hafi verið meira og minna í eldhúsinu frá því snemma morguns og fram til klukkan 11. Þarna hafði hver sitt tempó og fólk fór á fætur á misjöfnum tímum. Þegar ég sjálf bjó í Íþöku í tvö ár þá fannst fér líka frábært að fara á dæner og fá mér eldaðan morgunmat - það var ótrúlegt úrval veitingastaða sem buðu mismunandi brönsa og gaman að sitja lengi, lesa blöðin, og spjalla.
En þegar dætur mínar biðja um French tost um helgar þá dettur mér Winston alltaf í hug. Þau létust bæði Jóhann og Winston langt um aldur fram, hann 1983 og hún 1987. Þau voru hin síðari ár virtir enskukennarar við MH og var ég svo gæfusöm að stija í tímum hjá Winston. Hún var vinkona mín.

Thursday, September 02, 2004

Tískunesti skólabarna

Í morgun setti ég slatta af "mini carrotts" í nestisbox dætra minna. Þetta er samkvæmt heimildum eldri dóttur minnar tískunesti í Vogaskóla, eða allavega í hennar bekk. Gott þegar svona hollusta er í tísku. Í búðinni í gær bað´hún einnig um að fá að taka með hið hroðalega ógeð skólajógúrt - dísætur andskoti - en vitiði hvað - mamman lét undan. Ég tek það fram að þetta er í fyrsta skipti í 6 ár sem ég samþykki það. Er ég slæm móðir, of eftirlátssöm, nenni ekki að standa á mínu - svona spurningar þjóta oft um í höfðinu á mér, en ég viðurkenni að þessar grundvallar spurningar voru ekki áleitar þegar ég keypti jógúrtið - mig langaði einfaldlega að gleðja barnið

Wednesday, September 01, 2004

Hvað haldið þið?

Haldið þið að haustið sé komið - er komin tími á kerti og að skipta úr hvítvíni yfir í rauðvín...á ég að fara að þvo vetrarúlpur dætranna.....það var mjög dimmt á morgnanna þegar ég fer á fætur svona um 06:15 - það finnst mér erfitt - allt í lagi með kvöldmyrkrið....

Saxafón tími

Jæja ég fór í minn fyrsta saxafón tíma í gær. Ekki blés ég sjálf í lúðurinn heldur hún Bryndís dóttir mín sem er níu ára síðan í ágúst. Hún er búin að vera í forskóla í tvö ár og gat þess vegna blásið Góða mamma í fyrsta tíma!Hún setti fljótt stefnuna á saxafóninn þegar hún hóf tónlistarnám - sagði að saxafóninn hefði svo frjálslegan tón. Ég er afar ánægð með að hún skuli læra á blásturshljóðfæri og geti verið í lúðrasveit þegar fram líða stundir. Ég lærði á píanó í mörg ár og það er dáldið einmannalegra. Svo ætlar hún Bryndís að halda áfram í karate, hún er komin með hálft rautt belti og hyggur á meiri frama í þeirri íþrótt. Ekki dregur það úr áhuganum að sl. vor þegar karatenu lauk fékk hún viðurkenningar skjöld fyrir ástundun, framfarir og prúða framkomu.
Bryndís elskar stærðfræði og dýr og ætlar að vera stundum knapi og stundum dýralæknir og stundum að vinna í dýrabúð. Hún hefur líka mikin áhuga á íslenska þjóðarblóminu og spáir talsvert í hvaða blóm verði fyrir valinu. Hún spekúlerar í ýmsum hlutum t.d. yfir morgunverðinum í morgun þá ræddi hún um fréttir á skjá einum - var með það á hreinu að þar væru ekki hefðbundnar fréttir en tveir fréttaskýringa þættir, Dateline (sem hún sagði að væri reyndar búið) og 48hours..... hún hefur líka rosalegan áhuga á að eignast play station og er óþreytandi á að benda okkur foreldrum á tilboð sem ekki er hægt að hafna.
Svo er hún viljug og bóngóð, oft ákaflega utan við sig, finnst gott að tjilla, og ekkert slæmt að vera stundum ein.....
Um Önnu mína skrifa ég seinna