Sunday, January 30, 2005

Dóttir mín?

Þessi elska hún eldri dóttir mín á það til að vera æði tepruleg í tali, t.d. má engin fara á klóið á heimilinu, við verðum að fara á snyrtinguna. Ég næ þessu ekki, og vona að hún vaxi upp úr þessu því ekki heyrir hún svona teprugang hér á heimilinu og þetta er eitthvað svo smáborgaralegt. Og spyrjið hvern sem er - mamma hennar er allt annað en tepruleg. Ég skrifa þessar hugleiðingar hér því að í gær barst málshátturinn "Barnið vex en brókin ekki" í tal okkar á milli. Hún bað mig vinsamlegast að ef ég ætlaði að nota þennan málshátt eitthvað þá myndi ég segja "Barnið vex en nærfötin ekki" Hún hélt greinilega að þarna væri verið að tala um nærbrækur og fannst það eitthvað svona einum of! Æi hún er að verða 12 ára eftir 3 mánuði og það er komin talsverð gelgja í hana blessaða...

Sunday, January 16, 2005

Ömurlegt kvef

Ég er með rödd eins og versti (besti) bassi - orsökin er rosaleg hálsbólga. Svo er ég líka með hósta lengst neðan úr rassg......Ekki er þetta þó flensan því ég er ekki með hita en búin að liggja fyrir slöpp mestan part helgarinnar. Gulli minn að vinna og ég ekki beint skemmtilegur félagsskapur fyrir dæturnar - ég þoli ekki svona helgar.

Wednesday, January 12, 2005

Aldrei of seint

Hún móðir mín verður 79 ára í sumar. Hún er dugleg að sækja tónleika og leikhús og fer í sund og er ágætlega hraust. Hún hefur farið á tvö eða þrjú námskeið hjá Jóni Bö í Endurmenntunarstofnun og er nú búin að skrá sig á námskeið sem byrjar í lok mánaðar. En þetta er ekki um íslendingasögurnar - og þó, því blessunin er búin að skra sig á námskeið þar sem á fjalla á um skáldskap Megasar......

Tuesday, January 11, 2005

Steiktur fiskur

Steikti rosalega góðan fisk í gær. Ég bý rétt hjá einni flottustu fiskbúð bæjarins sem er Hafberg í Gnoðarvogi, en ég er eitthvað svo íhaldssöm, enda vilja líka dætur mínar helst fiskinn sem einfaldastan, soðin, steiktan eða í bollum. Það sem ég er farin að gera þegar ég steiki ýsu er að ég set obbolítið af hlyn sírópi á pönnuna....þetta var mér kennt á veitinga stað nokkrum norður í landi og þetta er mjög gott....

Framhjáhald

Framhjáhaldið í gærkvöldi stóð í þrjá tíma og var alveg dýrðlegt! Maðurinn minn vissi af framhjáhaldinu og maðurinn sem ég var einna mest að halda framhjá tók þátt í framhjáhaldinu!
Hvernig má þetta vera? Jú þetta var svona kóraframhjáhald og stjórnandi framhjáhaldskórsins í þessu verkefni stjórnar mínum venjulega kór. Tónlistin er alveg rosalega skemmtileg, þökk sé hildigunnurr@blogspot.com. Ég hlakka til næstu æfinga og til Skálholtsdvalar.

Monday, January 10, 2005

Góð helgi

Já - hún var fín þessi helgi. Fórum í sumarbústað seinnipart föstudagskvölds - komumst klakklaust, en ekki mátti miklu muna enda talsvert meiri snjór í uppsveititum Árnessýslu, að ég minnist ekki á kuldann, því það var 13 stiga frost. Við vorum heppin að vera með skóflu því við þurftum að moka okkur inn í húsið, það hafði skafið talsvert. En heiti potturinn var æðislegur og vegna kuldans þá sátum við öll með húfur í pottinum! Óneytanlega dálítið fyndin sjón - en munaði öllu að þurfa ekki að bleyta haustinn. Veðrið á laugardeginum var dýrðlegt, blankalogn og allt hvítt og sól skein í heiði. Við brugðum okkur í kakó á Hafið bláa - alveg einstakur staður og stendur ótrúlega fallega og gaman að fylgjast með briminu. Vorum í sveitinni þar til í gær eftirmiðdag og fórum síðan með mömmu, bróður og mágkonu að sjá Hýbýli vindanna. Þetta er falleg og áhrifamikil sýning og vel leikin, en hvílík depurð! Og hvílíkt líf hjá fólkinu. Sýningin er nokkuð löng um 3 tímar og talsvert hæg, en hélt manni þó alveg. En ekki var maður glaður eftir sýninguna...næst ætla ég að hlæja í leikhúsi. Það væri gaman að sjá eitthvað eins og Kvetch - frábær sýning og ég hló svo mikið að ég var búin að gráta af mér alla málningu fyrir hlé...

Sunday, January 02, 2005

Alvara lífsins

"Á morgun byrjar alvara lífsins" þetta sagði pabbi gjarnan svona á sunnudagseftirmiðdögum þegar liðið var langt á helgi og mánudagurinn framundan. Og það má svo sannarlega segja - á morgun er fyrsti vinnudagur á nýju ári. Verður örugglega allt í lagi þegar maður er mættur á svæðið, en eftir öll herlegheit jóla og áramóta þá er maður eiginlega ekki alveg tilbúin að mæta hversdagsdeginum. Áramótin voru fín hér í Vogahverfinu. Íbúar Litlu götu hópuðust saman og skutu í kringum miðnætti. Síðan var farið á milli húsa og nágrannar kysstir og dansað við gamlar frænkur og sungið við píanóundirleik. Glas hér og sopi þar. Rosalega gaman hjá krökkunum í götunni að hittast og skemmta sér saman. Gærdagurinn var rólegur, alltaf er ég jafn fegin á nýársdag að tilheyra ekki þeim hópi sem þarf að fara í greiðslu og kjól og mæta einhverstaðar í fínan dinner. Bara ölglas, horft á skaupið öðru sinni og borðað eitthvað gott. En nú er mér ekki til setunnar boðið - það bíður eftir mér tonn af þvotti - Alvara lífsins byrjar greinileg í dag. GLEÐILEGT NÝTT ÁR OG TAKK FYRIR GÖMLU ÁRIN