Tuesday, June 29, 2004

Minnimáttarkend

Það hefur lengi farið í taugarnar á mér þetta tal um "íslands-vini" þetta og "íslands-vini" hitt. Það er eins og það megi ekki koma hingað hljómsveit eða einhverjir aðrir "frægir" - þeir eru strax komnir með sæmdarheitið Íslandsvinir. Það fer í taugarnar á mér þegar einhver rekur við á keflavíkurflugvelli, stingur tá í blá lónið og fer á svið í laugardalshöll fær þetta sæmdarheiti.Þetta er einhver rosaleg minnimáttarkend hjá okkur. Ef þið viljið kynnast raunverulegum Íslandsvini, þá mæli ég með bakþönkum Hrafns Jökulssonar í Fréttablaðinu í gær.

Monday, June 28, 2004

Gamalt og gott

Við hjón brugðum okkur af bæ á föstudagskvöld og fórum m.a. á Hornið í léttan snæðing. Ég hef ekki komið á Hornið í fleiri, fleiri ár - gæti trúað að þau væru 15 - og mikið var notalegt að koma þarna aftur. Ég á afar góðar minningar frá Horninu þegar það opnaði 1980 og þar var mörg pizzan snædd og drukkið Matteus Rose með.
En hvað pantaði ég mér - jú auðvitað djúpsteiktan cammenbert! Ég man upplifunina fyrir 24 árum - maður hafði aldrei fengið þvílíkt hnossgæti. Og mér fannst næstum eins og skynsömu skórnir mínir sem konur á fimmtugs aldri klæðast breytast í kínaskó, bleiki bolurinn minn í mussu, svarti jakkinn í anorakk og allt makeup færi af andlitinu!

Gamli maðurinn

klukkan 06:45 - stóð á skilti gamla mannsins "Hver skapaði sýkla"

Wednesday, June 23, 2004

Fame

Við mæðgur brugðum okkur á Fame í Smáralind í gær - tengadóttir W. í hlutverki og útvegaði okkur miða
á lokaæfingu. Þetta var bara gaman - kröftur hópur hæfileikaríkra söngvara og dansara. Sveppi skemmtilegur og
í hlutverki trúðsins. MH er með skemmtilegt hlutverk - dansara sem á í basli við aukakílóin og fór vel með
það. Rosalega er margt ungt fólk í dag sem dansar og syngur eins og englar......

Monday, June 21, 2004

Brúðkaupsafmæli

Í dag eigum við hjónin 13 ára brúðkaupsafmæli!! Þennan dag fyrir 13 árum áttum við dásamlega stund í
Dómkirkjunni - ég í bláum kjól - Sr. Hjalti gifti, Hamrahlíðarkórinn söng - veisla í Oddfellow - vín og ostar -
matur í Viðey með nánasta og síðan að opna gjafir með fólkinu sínu í litlu íbúðinni okkar á Öldugötunni -
freiðivín og fjör langt fram eftir nóttu.
Dætur mínar vilja óðar og uppvægar halda upp á þennan dag með miklu húllum hæi. Ástæðan er sú að í
fyrra vorum við í Köben á þessum degi - borðuðum í Tívolí - mikið gaman og dagurinn endaði á flugeldasýningu þar
sem þetta var laugardagur - fullkomin skemmtun!
Sú yngri stakk upp á því að við færum í Kringluna að borða - það væri svo rómantískt - blessunin ruglar alltaf
saman Kringlunni og Perlunni!!!!
Ég er nú samt að hugsa um að hafa soðna ýsu í matinn - getur verið að ég bjóði úti í ísbúð eftir mat.....
Það er gott að eiga góðan mann

Monday, June 14, 2004

Fótbolti

fótbolti, fótbolti, fótbolti - það vill nú svo heppilega til að maðurinn minn fær borgað fyrir
að horfa á EM í knattspyrnu - hver býður betur?

Andinn og holdið og tiltektin...

Ég segi eins og Þórdís - andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið upptekið við annað.
Annars hefði Gamla verið stolt af dóttur minni á laugardag þegar sú stutta lýsti því yfir að
hægt væri að vinna heimilisverki á skemmtilegan hátt - það fór þannig fram að þær fengu að velja tiltektar tónlist - Írafár - og svo var allt sett á fullt.
Þær voru nokkuð hjálplegar - ég fór að hugsa hvort samvistir barna við foreldra næðu út yfir gröf og dauða,
þ.e. að það er meira að segja skemmtilegt að taka til, af því það er eitthvað sem við erum að gera saman....
Annars leiðast mér húsverk alveg hroðalega!!! Svo leiðist mér líka þegar allt er í drasli og svo leiðist mér að
mér skuli leiðast að allt sé í drasli - ég vil miklu heldur tjilla, lesa, horfa á sjónvarp, fara í sund, drekka
guðaveigar, kjafta í símann, syngja, bulla, blogga, sitja í sólinni......