Friday, September 30, 2005

Af dóttur

Sú yngri - 10 - ára er á leið á Landsmót skólalúðrasveita sem haldið verður um helgina á Akranesi. Rosalegur spenningur og blásið og skemmt sér heila helgi. Við vorum að skoða dagskrána og sáum að það á að fara 2svar í sund, það verður kvöldvaka og það sem er rosalega spennandi heilt ball með Jagúar og hún var ánægð með allt sem á að gera. Henni varð að orði - "vá það á sko aldeilis að daðra við okkur" ! smá rugl með dekra og daðra.
Hitt var ekki eins skemmtilegt. Við vorum að keyra - mikið fer annars margt skemmtilegt fram í bílnum - og þá er stræróskýli þar sem er veggspjald frá VR. Mín spyr hvort ekki eigi bráðum að fara að laga þennan launa mun milla "kinnanna" Jú ég vonaði það svo sannarlega en sagði jafnframt að þetta hefði verið svona allt of lengi og virtist eitthvað erfitt að leiðrétta þetta. Þá kom frá minni: Þetta er ekki sanngjarnt, konur geta alveg verið jafn dug.....Þarna var hún stoppuð, lá við að móðirin klossbremsaði og svo kom langur fyrirlesur um að konur VÆRU alveg jafn....
Hvaðan fær 10 ára barn þessa hugmynd að konur geti alveg verið jafn? Ekki frá mér, ekki frá föður sínum - eru krakkar eitthvað að misskilja þessar auglýsingar? Eða er þessi minnimáttarkennd meðfædd?

Wednesday, September 14, 2005

Nú kom hún

út úr strætó á mínútunni 07:10. Heldur illa klædd - í þunnri kápu - og það er farið kólna talsvert.

Ég horfði á myndina

um Jóhann Sigurjónsson í sjónvarpinu í gær. Ekki var ég fróð um líf þessa frænda míns en hann og amma mín, Kristín Björg, voru systkinabörn. Árið sem Jóhann lést, 1919, kom hann á Siglufjörð og heimsótti frænku sína. Hún bar þá undir belti eða var ný búin að eiga föðurbróður minn sem var síðan skírður eftir frænda sínum - Jóhann Sigurjónsson - og var síða Hannesson. Hann skrifaði nafni sitt alltaf Jóhann S. Hannesson. Hann lærði í Kaliforníu, varð síðan skólameistari á Laugarvatni og síðan kennari við Menntaskólann við Hamrahlíð. Hann dó langt um aldur fram aðeins 65 ára og var þá á lokasprettinum að ljúka við að ritstýra Ensk-Íslenskri orðabók.
Jóhann yngri var skáld eins og sá eldri. Hann gaf út nokkrar ljóðabækur og fáir náðu eins góðum tökum og hann á limru forminu. Víðsýnni maður og skemmtilegri var vandfundin. Ég var síðan í brúðkaupi nafna hans og barnabarns Jóhanns Tómasar fyrir stuttu.....

Tuesday, September 13, 2005

Í bílunum með yngri dótturinni áðan

dóttir: mamma veistu hvað við fengum í skólanum í dag! L. var að koma frá Svíþjóði
foreldrar: Svíþjóð
og 10 sekúndum síðar
dóttir: mamma sjáðu númerið á þessum bíli
foreldrar: bíl
Hvað er til ráða þetta - þetta i í endan á öllu þágufalli er að gera mig sturlaða!

Hvernig getur

vinnudagur orðið leiðinlegur þegar það síðasta sem maður heyrir þegar farið er út úr bílnum er hin undurfagra tónlist Hróðmars Inga við ljóð Páls Ólafssonar. Svo syngja þau þetta svo svakalega skemmtilega Þórarinn og Ragnheiður.
Það er allavega auðveldrara að sporna við leiðindum.

Monday, September 12, 2005

Ljós þrisvar í viku

var sungið hér um árið. Það á við mig núna, ég er komin upp í heilar 90 sekúndur - en það sem er frábært er að ég sé greinilegan mun á sóranum og tek greinilega vel við ljósunum. Þvílíkur léttir. Svo þarf ég bara að komast í sól og sjó -það er það besta.......

The Matrix

Ég er útivinnandi húsmóðir farin að halla í fimmtugt og bý í Vogahverfinu. Á mann og tvær dætur. Lifi heldur svona rólegu og "normal" lífi. Vakna snemma, fer til vinnu, þæv þvotta, elda, hjálpa til með heimanámið. Fæ mér rauðvín og bjór og hef ekki komið á bar ég man ekki hvað lengi. Ekki það - ég skemmti mér yfirleitt vel þegar ég fer út - en ég er bara búin með kvótann eftir að hafa verið með stimpilkort í Þjóðleikhúskjallarann í mörg ár. Fer helst út með kórnum og svo eigum við gömlu vinkonurnar frá RÚV það til að taka svona 10 tíma át, kjarfta og sull sessjónir svona tvisvar á ári. En viti menn!!! Nú hefur aldeilis breyst hjá mér lífið. Ég er úti allar nætur, í brjáluðum partýum, með rosalega skemmtilegu fólki, yfirleitt eru skemmtilegir mússíkantar með, t.d. hafa Stuðmenn haldið uppi fjörinu nokkrr nætur og það er vægast sagt alveg ótrúlega gaman. Allskonar nýtt fólk og fullt af gömlum vinu. Staðirnir eru margir t.d. Vestmannaeyja eina helgina. Og alltaf sungið mikið og borðaður góður matur.
En svo vakna ég - vel út sofin og ekkert rykuð í hausnum.
Þetta er sýndarveruleiki af bestu gerð...........

Wednesday, September 07, 2005

Þegar heimur

er á hverfandi hveli og óvissan er allstaðar, skapið sveiflast í allar áttir, það er ýmist rigning eða sól, kallt eða hlýtt, gaman eða leiðinlegt, grátur eða hlátur þá er maður svo óendanlega þakklátur fyrir það sem alltaf er eins milli daga.
Þegar ég sit hér við gluggann í Borgartúni 30 snemma morguns, hlusta á 7 fréttir í útvarpi og bíð eftir að geta hringt á löggustöðvarnar áður en ég fer í útsendingu í umferðarútvarpinu þá get ég stólað á eitt.
Strætó kemur á slaginu 10 mínútur yfir 07 - út úr strætó kemur kona og hleypur strax af stað í austur átt. Þetta gerist alltaf - alla virka daga.
Ég er búin að búa til sögu um þessa konu; ég er næsta viss um að hún vinnur á Cabin Hotel og á að byrja klukkan 07, en afþví að það stendur svona á strætó þá hefur hún leyfi til að koma dálítið of seint á morgun vaktina. Nú á ég bara eftir að fantasera um hennar persónulegu aðstæður

Tuesday, September 06, 2005

Ég og eldri

dóttirin í Kringlunni í gær að kaupa afmælisgjöf fyrir bekkjarsystur. Fórum í Ice in a bucket og skoðuðum allt það glingur sem þar fæst. Dóttirin "Það gengur ekki að kaupa kross því pabbi hennar R. er ekki kristinn"

Monday, September 05, 2005

Ósköp góð helgi

að baki. Söng Brahms í Hveragerði með Dómkórnum allan laugardaginn - fékk mér bjór yfir leiknum og horfði á frekar leiðinlegan leik, en frábærlega pródúseraður af manni mínum! Aukabarn í mat og gistingu og mágurinn í kjallarnum borðaði líka hjá okkur - kjulli með ostasósu og grjónum. Rólegur dagur í gær - lærði heilmikið með stelpunum. Mér finnst svo notalegt að taka dálítið góðan tíma í heimanám á sunnudögum, það léttir allt yfir vikuna. Nú eru íþróttir og tónlistarskólar að byrja í vikunni og þá byrjar skutlið og að kenna á nýtt leiðakerfi strætó....

Friday, September 02, 2005

Það er maður

sem stundar það að hringja á talmáls útvarpsstöðvarnar - helst Útvarp Sögu - og ber þar út, í beinni útsendingu, óhróður um föður minn. Þetta er ægilega leiðinlegt. Látin maður getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og mömmu minni þykir þetta afar leiðinlegt. Bæði heyrir hún þetta sjálf og svo eru vinkonur hennar að hringja og inna hana eftir þessu.
Þessu er þó ekki svara vert - bæði er sá sem hringir komin all mikið á efri ár og svo held ég að hann gangi ekki heill til skógar og er varla sjálfrátt.
En leiðinlegt samt.....

Fjölgunar von

á mínu heimili. Í dag kemur hinn sex ára gamli Brattur á heimilið. Brattur er svartur og hvítur högni sem ætlar að vera hjá okkur um ókomna tíð. Núverandi húsbændur hans þau Gústi og Beta eru á leið til náms á Englandi og hann kemur til okkar í varanlegt fóstur. Mikil gleði á okkar heimili.