Saturday, April 23, 2005

Eldhússtörfin

Það er gúllassúpa í pottnum og kaka í ofninum. Stuðningsfulltrúar fjölskyldunnar ætla að koma í mat. Með stuðingsfulltrúum á ég við ömmuna og föðurbróðurinn. Þau eru bæði að fara frá okkur, amman í sumarfrí á sólarströnd og föðurbróðurin (unglingurinn 52ja ára í kjallaranum) að fara út og suður um landið að vinna. Okkur kemur til með að vanta stuðningsfulltrúa í nokkarar vikur - það er ómetanlegt að fá hjálp þegar mikið (eða lítið) liggur við. Yngri stelpan hefur nokkuð gaman af að fylgjast með og hjálpa til í eldhúsinu. Hún sá súkkulaði sem á að bræða yfir kökuna og spurði "Má ég suða súkkulaðið" lógískt - þetta er nú einu sinni suðusúkkulaði!

Friday, April 22, 2005

Litlu frændur mínir þrír

Ég hef á tæpu ári eignast þrjá litla frændur sem eiga það sameiginlegt að langafar þeirra voru bræður pabba míns og eru allir fyrstu börn foreldra sinna. Í júlí í fyrra kom Jakob Ragnar í heiminn. Hann er sonur Jóhanns Tómasar og Jóhönnu konu hans og fæddis í Kanada þar sem fjölskyldan býr tímabundið. Sigurður pabbi Jóhanns Tómasar er sonur Jóhanns föðurbróður míns. Hinn 15. mars kom í heiminn Birgir Snær sonur Steindórs og konu hans Guðrúnar. Birgir pabbi Steindórs er sonur Steindórs föðurbróður míns, en Birgir eldri dó langt um aldur fram 1996. Síðan fæddist Ari Dignus 29. mars. Hann er sonur Kristófers Dignus og Maríu Hebu konu hans. Wincie mamma Kristófers er dóttir Jóhanns föðurbróður míns. Sem sagt: ég og afar og ömmur þessara ungu sveina erum systkinabörn. Alla þessa drengi passaði ég þegar þeir voru litlir en allra mest - reyndar mikið - Kristófer Dignus. Wincie mamma hans passaði mig, ég passaði Kristófer, Kristófer hefur passað dætur mínar (hann og María Heba voru reyndar au pair hjá mér eitt sinn í 3 vikur) og ég vona svo sannarlega að ég fái að passa Ara Dignus. Ég er gjörsamlega sjúk í smábörn og væri svo sannarlega til í að eiga eitt barn í viðbót. En eins og ég segi þá get ég sungið í kór þótt ég sé leg laus, en ekki ef ég væri lag laus. Þetta snýst síðan við þegar kemur að barneignum......

Monday, April 18, 2005

Enn og aftur um bústaði

Ég hef aðgang að bústað sem er heimsóttur all oft. Þarna líður okkur vel, heitur pottur og allt til alls. Ég er ekki mikið í skóræktinni - vill reyndar sem minnst af trjám hafa, en það sem þessi bústaður gerir er að hann neyðir mann eiginlega að slappa af. Ég er nú heldur löt týpa og nýt þess í botn að gera sem minnst í frítíma mínum, en þegar við erum í bænum þá er alltaf eitthvað sem þarf að gera. En þarna fyrir austan les ég, bulla við minn mann, spjalla við börnin, elda í rólegheitum með alla í kringum mig, hlusta á tónlist og legg mig svo! Við vorum í sólarhring um helgina bara þrjú, hjónin og yngra barnið, frá föstudagskvöldi til laugardagskvölds. Engin klæddi sig fyrr en til neyddur á laugardeginum, ég las í eina 4 tíma, horft á fótbolta, borðað snakk og svo hringdi ég nokkur símtöl. Ég fór langt með að klára nýjustu bók Joanne Trollope. Hún er alveg frábær rithöfundur og hvernig hún gerir líf meðal breta intresant er einstakt....Þessi bók heitir Brother and Sister og ég mæli með henni.

Sunday, April 17, 2005

Rétt skal það vera

Já - stelpurnar í bekknum sameinuðust í afmælisgjöf til stelpunnar - sungið og rosafallegur bolur og eyrnalokkar úr pakkanum í fyrsta tímanum á afmælisdegi hennar...mín glöð en forviða og feimin....

Friday, April 15, 2005

Engin afmælis veisla

En ekki vill hún halda bekkjarafmæli og hefur ekki viljað nú í 3 ár - sama hvað við leggjum til. Staða hennar í bekknum hefur þó stór batnað - en hún er vör um sig og segir að þar sem stelpurnar hafi ekki áhuga á að tala eða leika við sig og sýni henni ekki áhuga þá hafi hún ekki áhuga á að bjóða þeim í afmæli. Mér finnst þetta þroskað viðhorf - en vildi að hún hefði ekki þurft að þola það sem hún hefur mátt þola til að hafa þetta viðhorf. Ég veit að þær mundu allar koma, en það sem hún er svo hrædd við er að í afmælinu sé voða gaman og hún fari kannski að finna sig í hópnum en svo næsta dag verði hún aftur komin á gamla góðan staðinn aftast í goggunar röðinni.
En veturinn í vetur hefur verið svo mikið mikið betri en í fyrra þegar félagslega eineltið náið hámarki. Í fyrra fór stelpa í bekknum til útlanda í eitt ár, en sú hafði verið mjög leiðandi og sterkur karakter og við það breyttust öll valdahlutföll. Það varð til þess að bekkjarsysturnar hættu að svara henni, yrtu ekki á hana, engin hringdi, engin gat leikið þó hún spyrði og þær horfðu í gegnum hana. Vanlíðan hennar var óskapleg og þegar ég var búin að hugga hana - þá grét ég. Skólinn brást henni á margan hátt, því þó verið væri að reyna að búa til hóp í kringum hana þá var enn valið í lið í leikfimi eins og gert var í fornöld og mín alltaf valin síðust. Þegar ég komst að því að slíkt væri látið viðgangast árið 2003 gjörsamlega trylltist ég. Ég ætlaði að skipta um skóla, en þá var loks stuðningur vegna lesblindunnar orðin ásættanlegur og mér fannst áhættan of mikil.
Hún fór að sækja fundi hjá KFUK og kom þar inn alveg á jafnréttis grundvelli og ekki með neitt á bakinu - byrjaði með hreint borð. Það hefur verið afskaplega gott fyrir hana og nú þegar hún er að klára 2. árið sitt hjá KFUK þá fékk hún mætingaverðlaun. Einnig hefur hún haft félagsskap af stelpunum í kórnum.
Svo er stúlkan sem var í útlöndum í eitt ár komin aftur og þá fóru hlutirnir að lagast. En við sofnum ekki á verðinum og hún er enn vör um sig. Það er víst stokkað upp í bekkjum eftir 7. bekk og þá sjáum við hvað setur.

Afmæli í gær

Mín eldri varð 12 ára í gær - mikið gleðibarn öldruðum foreldrum sínum - við hjónin vorum 35 og 36 þegar hún fæddist. Annars má lesa allt um getnað og fæðingu dætra minna í bókinni góðu "Konur með einn....." Þetta var skemmtilegru dagur og hún fór alsæl að sofa. Hún var vakin í gærmorgun - en nefndi það sérstaklega kvöldið áður að hún vildi ekki vakna við söng - með pökkum. Hún fékk náttslopp og eyrnalokka frá okkur foreldurum og dásamlegan tusku fíl frá systur sinni. Þær eru enn vitlausar í tuskudýra á þessum aldri. Eftir skóla kom heim með henni skólasystir og hjálpaði henni að gera heimasíðu á fólk.is. Hún fór með nammi á kóræfingu og trakteraði kórsystur sínar. Og það er ekki amalegt að fá afmælissönginn sungin af Graduale kórnum og svo kórnum hennar Graduale future. Pabbi hennar var að vinna til 22:00 og systir hennar í tónlistarskólanum til sama tíma þannig að við frestuðum því að fara út að borða öll saman en í staðin fórum við tvær á Subway - og vitið menn - kom ekki bróðir minn með dóttur sína þangað á sama tíma og við áttum ánægjulegan subway saman. Síðan var haldið til ömmu í ís. Frá ömmu sinni fékk hún blokk með góðum teiknipappír og 10 mis mjúka blýanta enda teiknari góður. Og svo Britney Spears greatest hits..... Við heimkomu beið afmælis gjöf frá föðurbróðurnum í kjallaranum - The incredibles á DVD.
En einn stærsti viðburður dagsins var að fá að sitja frammí! Hún er löngu búin að ná hæðinni 150cm en ákveðið var að það væri við hæfi á 12 ára afmælinu að setjast í framsætið. Mikil lukka!

Saturday, April 09, 2005

Góður dagur

Var að koma úr Skálholti - kórinn var að taka upp - skemmtilegur dagur með söng, hlátri, varalitun, og afmælisbarni því Hannes bróðir minn sem er einnig í kórnum á afmæli í dag - hann er yngir bróðir minn og er 44 ára - ekki leiðinlegt að fá afmælissöngin sungin í í Skálholtsdómkirkju....til hamingju enn og aftur með daginn elsku bróðir og takk fyrir að sækja mig og keyra heim....hafið það notalegt í kvöld......

Thursday, April 07, 2005

Farðu frá Róm

Bush og fokkaðu þér á einhverjum öðrum stað! Ég er brjáluð úr reiði!

Mér er óglatt!!!

Að sjá þennan viðbjóðslega Bush biðjast fyrir við líbörur páfa! Hvað sem segja má um íhaldssöm sjónarmið páfa þá var hann einlægur talsmaður friðar í heiminum og lagði ríka áherslu á fyrirgefningu og var alfarið á móti dauðarefsingu. Svo kemur fjöldamorðinginn frá Texas og dirfist að leggjast þarna á bæn! Og Pólverjar úr heimabæ páfa fá ekki að votta honum virðingu sína.

Monday, April 04, 2005

Þessi er alvöru

Ég og sú yngir mín hlustuðum á hádegisfréttir í gær og tókum úr uppþvottavélinni í leiðinni. Í miðju stússeríi spyr stúlkan "Hver drap eiginlega páfann"
Ég er búin að vera að hugsa málið og velti því fyrir mér hvort þetta sé út af því að hún horfi á mikið ofbeldi í sjónvarpinu, en svo er ekki. Þær eru fljótar að líta undan þegar þær sjá gult eða rautt merki í horni skjásins og sú eldri segir að það skemmi í sér sálina að horfa á ljótt í sjónvarpi og ljótar myndir - skynsöm stúlka sú. Ég held að sú yngir hafi haldið að einhver hafi drepið hann af því að þetta fær svona mikla umræðu í fjölmiðlun. Hún er ekki vön því að svona mikið sé gert úr dauða fólks ef það hefur dáið af eðlilegum dauðdaga og þá hlýtur skýringin að vera sú að hann hafi verið drepinn.
Og svo er nú ekki eins og páfinn sé daglegt umræðu efni á heimilinu, þannig að þarna er verið að fjalla um mann sem er henni svo til gjörsamlega ókunnur - en fær þessa gríðarlegu umfjöllun.