Friday, May 27, 2005

Góð mynd á sunnudagskvöld

Before night falls heitir myndin sem er á sunnudagskvöldið í sjónvarpinu. Hún er byggð á sjálfsæfisögu Reinaldo Arenas og bókin er sérlega áhrifamikil. Ég las einhverju sinni umsögn Hallgríms Helgasonar um myndina og las eftir það bókin. Síðan reyndi að fá myndina á video-leigu en engin átti hana. Ég setti mig í samband við Hallgrím en hann átti hana ekki heldur. Þá hringdi í 78 Samtökin en ekki var hún til í safni þeirra. Þeir ætluðu að setja hana á innkaupalista, en ég hef alltaf gleymt að hringja aftur og spyrja um hana. En nú get ég sumsé horft á hana á sunnudagskvöldið. Þetta er saga Reinaldo sem býr á Kúbu. Hann er samkynhneigður og slíku fólki var ekki vært undir stjórn Castros. Svo var hann ljóðskáld og samdi ljóð lítt þóknanleg stjórnvöldum. Hann fór síðan til Bandaríkjanna þar sem hann lést. Horfið!

Á nýjum stað

Þegar ég byrjaði sem fastur starfsmaður hér á Umferðarstofu þá vorum við á umferðaröryggissviðninu í frekar leiðinlegu lokali hér á neðstu hæð og snérum út að bílastæðishúsinu svo ekkert sást út. Nú erum við komin upp á 2. hæð og snúum í norður - dásamlegt útsýni yfir Esjuna og Skarðsheiðina, bara verst að ég verð eiginlega að setja kúluna í Nýherjahúsið til að þetta sé fullkomnað.......

Minn

stóri maður er að fara til smáríkisins Andorra á Smáþjóðaleika. Ég er að hugsa um að gerast villt og heimsækja mann og annann - sko ekki kall og annan - á meðan. Ég á erfitt að koma mér út úr húsi á kvöldin, er eiginlega einum of heimakær, það er ekki hollt - kannski verður auðveldara ef hann er ekki heima að fara út og ég tala nú ekki um ef veðrið heldur sönsum - það er dásamlegur dagur í dag og greinilega meiri lofthiti en verið hefur - húrra fyrir því!

Thursday, May 26, 2005

1. stig

Það var stolt móðir sem stóð utan við dyrnar á salnum hjá Sigursveini í gær og hlustaði á ungann sinn í stigs prófi. Hún var búin að kvíða þessu dálítið - enda aldrei gert neitt þessu slíkt áður - og mest kveið hún því að spila mollana (hún ber það fram molana) sagði að þeir gerðu hana sorgmædda.....En allt gekk vel og hún kom rjóð í kinnum fram og ánægð með sjálfa sig - hver er það ekki þegar hann er búin að yfirvinna hræðslu við eitthvað sem hann þekkir ekki. Var keyrð aftur í skólann og var rosalega ánægð.

Wednesday, May 25, 2005

Meðvirkni

Ég er virkilega meðvirk þessa dagana - dætur mínar eru orðnar nokkuð þreyttar á skóla, prófum og að vakna á morgnanna. Mér finnst ég eins og íþróttaþjálfari og hvet þær áfram. En ég skil þetta ósköp vel. Nú vilja þær bara vera úti til 22:00 og sofa út. Sú eldri er að taka síðasta prófið í dag og er búin á því. Hjá þeirri yngir er allt heimanám búið, en tónlistarskólanum lýkur ekki fyrr en í dag þegar hún tekur 1. stig í saxafóni. Mér finnst tónlistarskólinn starfa of lengi, það er allt búið, kór og karate en ekki tónlistarskólinn og nú vilja þau bara tjilla og leika sér eftir langan og erfiðan vetur. En það má byrja á fullu í haust, þá snýst þetta við, þau eru orðin þreytt á óreglunni og vilja takast á við kerfjandi verkefni. En næstu viku á ég eftir að vera jafn þreytt og buguð og þær og taka undir allar kvartanir og stappa í þær stálinu

Thursday, May 19, 2005

Júróvisjón

Var að koma frá því að sjá síðustu æfingu fyrir keppnina í kvöld - var þar með minni dómnefnd. Mér brá ekkert lítið þegar ég sá búninginn í blöðunum í morgun en svo skilst mér að það sé búið að laga hann og þrengja, allavega leit hann ekki eins hörmulega út og í blöðunum. Selma kom sterk út og hafði mikla nærveru og dansararnir voru ágætir, en þetta eru engir tímamóta dansar. Þetta verður spennandi í kvöld......

Júróvisjón

Jæja - þá er þessi blessaði júródagur upp runnin - það er júró hinn fyrri. Ég er með mína vara dómnefnd upp í sjónvarpi í dag og greiðum við lögunum atkvæði eftir lokaæfingu. Þessi atkvæðagreiðsla er síðan notuð ef eitthvað fer úrskeiðis í símakosningum í kvöld. Sami háttur verður við hafður á laugardag þá horfum við á lokaæfingu kringum hádegi. Í fyrra var þessi háttur við hafður og þá sat ég salí róleg heima hjá mér á keppniskvöldinu sjálfu í stað þess að vera í stressi niðri í sjónvarpi eins og verið hafði undanfarin ár - þetta verður fínt. Og dómnefndin alltaf jafn skemmtileg......

Tuesday, May 17, 2005

Enn ein unaðshelgin

Helgarnar í bústðnum snúast mikið um mat, drykk, leti heitan pott og lestur. Eldaði alveg svakalega góðan kjulla sem ég fann hjá þessari www.hildigunnurr@blogspot.com - það var á laugardagskvöldinu. Á sunnudeginum grilluðum við síðan - ég er nú ekki sérstaklega mikið fyrir grill en þetta var rosalega gott - úrbeinaður framhryggur sem við keyptum í Nóatúni - kartöflur, salat og svo köld sósa sem kennd er við eitt af fínni steikhúsum bæjarins en var alls ekki góð - var eins og notað væri létt mæjo í sósuna og það er eitthvað skrítið brað af slíkri sósu. Við borðum ekki mikið af rauðu kjöti á heimilinu svo dætur mínar verða eins og villidýr þegar þær komast í svona gott kjöt og vilja helst hafa það sem rauðast og borða það kalt daginn eftir. Þær minna mig á einhver lítil villidýr þegar þær óa og emja af gleði yfir kjötbitum! Svo gleypti ég í mig hina sérlegu vænmnu en stórskemmtilegu bók The notebook eftir Nicholas Sparks - las hana reyndar á íslensku með hinu órómantíska heiti Minnisbókin. Þetta var ekta sumarbústaðarlestning, en ekki finnst mér hún komast með tærnar þar sem Brýrnar í Maddison sýslu hafa hælana en á bókar kápu þá er þessum tveim bókum líkt saman. Ég er staðráðin að sjá myndina - langar að vita hvernig þessi stórmyndalegi, handlagni ljóðalesandi lítur út - samkvæmt lýsingum er hans eins og Mel Gibbson í Tim - bara dálítið klárari. Svo byrjði ég að búa bústaðinn undir sumarið, en við ætlum að leigja hann út í sumar eins og í fyrra - dálítið erfitt en þetta er dýr rekstur og ekki veitir af að fá eitthvað upp í rafmagn og fasteignagjöld. Verður líka til þess að við höfum frekar efni á að ferðast innanlands og gera eitthvað mikið skemmtilegt - enda á veðrið að vera gott í sumar samkvæmt langtíma spám.Búið í bili.....

Fótboltinn byrjaður

Ég er í klípu vegna íslandsmeistaramóts kalla. Sko þegar Breiðablik er í úrvalsdeildinni þá held ég náttúrulega með þeim - alin upp í Kópavogi. Þegar þeir svo falla reglulega þá hef ég lofað mannni mínum að halda með KR, en þar sem ég bý í Þróttarahverfinu og það eru einlægir köttarar allt í kring þá hallast ég að þeirri stemningu - það er svo gaman að vera þorpari. En nú er komin upp alvarleg staða varðandi 1. deildina. Þar er Breiðablik að spila og einnig KS og með Siglufjarðarliðinu spila tveir frændur mínir þeir Steindór og Þórður Birgissynir. Og að sjálfsögðu verð ég að halda með þeim. Eigum við ekki bara að hafa þetta þannig að ég vona að Breiðablik komist upp í úrvalsdeildina og KS haldi sig í 1. deild - allir sáttir?

Saturday, May 14, 2005

Litla bretland

er í talsvsverðu uppáhaldi hjá okkur hjónum. Það tók mig dálitla stund að ná húmornum en nú finnst mér þetta frekar fyndið. Við vorum öll fjögur fjölskyldan á búðarrápi í dag og dætur okkar fóru frekar mikið hjá sér þegar við byrjuðum að herma eftir skallanum í hjólastólnum. Bentum út í loftið og tuðuðum "I want that one" Svo hermdum við líka eftir geðsjúklingnum sem er í kvennmannsfötunum.......þeim var ekki skemmt dætrunum en við flissuðum eins og unglingar...

Friday, May 13, 2005

Við Vatnsmýrina

Var að hlusta á síðasta lag fyrir fréttir. Þar söng fyrrum samstarfsmaður minn og ljúfmennið Guðmundur Guðjónsson þetta fallega lag Sigfúsar Halldórssonar við ljóð Tómasar Guðmundssonar. Guðmundur Guðjóns hafði sérlega bjarta og tæra rödd - hefur það kannski ennþá þó svo að aldurinn sé farin að færast yfir - hann er þó örugglega sami öðlingurinn.

Jibbý

Ég varð í 3ja sæti í rauðvínspottinum - það þýðir 5 flöskur. Þetta er í 4 skipti sem hér er pottur og ég hef að sjálfsögðu alltaf verið með. Vann 1. vinning eitt sinn og fékk 12 flöskur þannig að ég er í blússandi plús. Þetta kemur sér afbragðs vel fyrir helgina - ég ætla að kaupa eitthvað rosalega gott á grillið og grilla á hvítasunnudag í bústað. Og drekka mikið mikið rauðvín með....

Fallega sagt

Ég var að fara yfir líffræði með eldri dóttur minni í gær - enda próf í morgun hjá henni. Við vorum komin að enda bókarinnar og þar er verið að tala um ellina. Sýnd var mynd af 17 ára stelpu og síðan önnur af sömu konu 70 ára gamalli. Við ræddum um útlitsbreytingar og hverning hún hefði breyst og hversvegna - reynslu hennar og hvað hún væri nú vitrari 70 ára gömul. Svo barst talið að hrukkunum og þá sagði mín þessa fallegu setningu "Mikið af hrukkum og full af gæsku". Þetta fanst mér sætt....

Ég fór í þá dýru búð 10-11

í gær því mig langaði í rúgbrauð og kæfu. Varla í frásögu færandi - ekki frekar en heilsíðu fyrirsögnin á Dagblaðinu "Linda P. laus við morgunógleði" Nú held ég að við séum komin með sigurvegara í ekki frétta keppninni. Er ykkur ekki sama þó hún sé laus við ógleðina? Svo fór ég að hugsa að það eru u.þ.b. 20 ár síðan hún var kosin ungfrú heimur - það þýðir að þeir sem eru undir 25 ára aldri vita varla hver hún er - og hinum eldri er nokk sama. Ég og stelpurnar á kössunum filssuðum ógurlega yfir þessari fyrirsöng enda voru allir standar fullir af óseldum blöðum - og klukkan var gengin í 10 í gærkvöldi.

Thursday, May 12, 2005

Gaman gaman

Allt búið að vera brjálað að gera hjá mér. Nú er umferðarskólinn komin á fullt skrið og búið er að heimsækja 20 leikskóla hér í Reykjavík - u.þ.b. 70 eftir. Svo er það Hafnarfjörður og Garðabær - þar byrjum við þann 20. maí. Kópavogur er erfiður - við verðum að nota gamla lagið þar og fara í grunnskólana þegar þeim lýkur. En eitt er á hreinu: það er ekkert prívatlíf þegar maður á börn á leikskóla.Ég fór með í fyrstu skólana og þá fengum við að heyra allt um pabbanna sem nota ekki belti og hitt og þetta.
Annars er ég með fínt fólk í kennslunni - lögreglurnar tvær úr forvarnadeildinni og leikskólakennara. Við ætlum að ná til 98% 5 og 6 ára barna með því að fara í leikskóla en ekki láta börnin koma í grunnskóla. Svo langar mig rosalega að komast út á land með fræðsluna. Vantar bara tíma til að skipuleggja það. Það hefst vonandi í næstu viku. Svo voru að koma niðurstöður úr könnuninni sem við gerum árlega fyrir utan leikskólana. Þær verða gerðar opinberar á blaðamannafundi í næstu viku. Blaðamanna fundur í tilefni þess að þetta er í 10. skipti sem könnunin er gerð. Elsku blessuð börnin - hvað mörg þeirra eiga stupid foreldra!!! Það er skandall að enn séu börn laus í bílum og sitji fyrir framan uppblásanlega öryggispúða - þrátt fyrir alla fræðsluna. Nú þarf að fara að sekta meira því fólki finnst erfitt að borga 10000 kall í sekt þó því finnist ekkert erfitt að láta börnin sín vera í lífshættu næstum daglega.

Tuesday, May 03, 2005

Æla og svefnleysi

Byrjaði að æla um um klukkan 17:00á sunnudeginum eftir að hafa barist við klígju allan daginn. Ælunni lauk síðan svona milli 0200 og 0300 og þá sofnið ég í tvo tíma. Hafði sem betur fer haft vit á að koma morgunútvarpinu af mér þegar ég sá hvert stefndi. Var komin í vinnuna um 09:00 en fór heim stuttu eftir hádegi. Og lagði mig. Fór að sofa á skikkanlegum tíma svona upp úr tíu í kvöld. Er búin að sofa tvo tíma í nótt- ég skil ekki þetta rugl á svefninum hjá mér. En ég er barasta að hugsa um að skutlast í sturtu og svo í vinnuna. Það er nóg - og meira en nóg að gera hjá mér - og frekar en að veltast inn í rúmi þá ætla ég að gera eitthvað gagn. Það er oft svona þegar eitthvað er mikið um að vera í vinnu að ég verð svona andvaka. Nú er umferðarskólinn að byrja hjá 5 og 6 ára börnum og verða nánast allir leikskólar á höfuðborgarvæðinu heimsóttir á leikskólum í Kópavoi undanskyldum. Öll skipulagning, hönnun á boðsbréfum, samskipti við leikskóla og fleira og fleira er á mínum herðum og ég fer alltaf að hugsa um það sem er framundan ef ég rumska og þá verður svefn víðsfjarri. Núna er það ekki verkkvíði - ég er í rokna stuði og þetta gengur vel - en næ einhvernvegin ekki ró. Ég þekki verkkvíða og þetta er ekki hann. En semsagt jörð er alhvít í garðinum mínum - klukkan er að verða 0500 og ég ætla í sturtu!!!!

Sunday, May 01, 2005

Fílahirðirinn

Vinsælasta lagið á Rás tvö þessa daganna er með Möggu Stínu og er eftir Megas. Þetta var fyrst flutt hjá Gísla Marteini í afmælis þætti Megasar þar sem afmælisbarnið skrópaði í sínu eigin afmæli. Þetta lag er einstætt. Það kom fyrst út á Loftmynd 1987 og ég féll algjörlega fyrir því - ein mann að ég hélt þar til ég uppgötvaði að Bryndís Valsdóttir knattspyrnukona, heimspekingur og vinkona mín hafði líka fallið fyrir því.Ég var að vinna þetta ár á Rás 2 - sá þar um morgunþátt frá 10- 12. Fyrst var ég með Skúla Helgasyni en síðan ein. Ég held að ég hafi verið eina manneskjan sem spilaði þetta lag -Fílahirðirinn frá Súrín - Reykjavíkurnætur urðu rosalega vinsælar, einnig Við Birkiland og Björg. Ég veit ekki afhverju Fílahirðirin náði ekki vinsældum þá - kannski var umfjöllunar efnið tabú þá - ástir tveggja karlmanna. Það virðist vera allt í lagi núna afþví að kona syngur það - en fallegt ástarljóð er alltaf fallegt og á þá ekki að skipta máli hver ástin er. Ég er líklega bara með fordóma afþví að mér finnst að þetta lag eigi að vera sungið af karlmanni. En ef þið viljið heyra raunverulegan sökknuð hlustið þá á lagið í flutningi Megasar. Ég heyrði þetta lag ekki í mörg ár ekki frá 1997 þegar ég flutti af Fálkagötunni og pakkaði niður öllum vinilplötunum og þar til 2002 þegar CD kom út og ég keypti hann í snarhasti. Síðan hef ég spilað þetta lag aftur og aftur. Ég var að hugsa um að láta flytja það í brúðkaupinu mínu 1991 en gugnaði á því. Þetta er rosalega fallegt lag - ég á ekki til orð til að lýsa því og textanum - þið verðið að hlusta á Megas!!!!!!

Kommentakerfið

Kannski er þetta einhver desperat færsla til að fá fleiri til að kommentera hjá mér - en sumir segjast ekki komast inn í kommenta kerfið hjá mér. Þetta á ekki að vera neitt mál, bara að merkja við anomymus og kommentera þannig og skrifa svo nafnið sitt undir færsluna.....