Wednesday, March 29, 2006

Morgun

Klukkan er ekki orðin sjö - ég er komin til vinnu og mér er kallt. Vaknaði klukkan 6, sleppti sturtu, smurði, klappaði kisu sem teygði sig á alla kanta og máta - hleypti henni síðan út . Allir sofandi undir hlýjum sængum, dæturnar afslappaðar með sæng upp upp að höku, maðurinn með óæðri endann undan sænginni. Mig langar heim í hlýtt bólið undir súð, snúa mér á vinstir hliðina og halda áfram að lesa Barböru Vine, sofna og vakna svona um hádegið, lesa blöðin, rista brauð, ná í teppi, halda áfram að lesa, læra með börnunum, elda grjónagraut, glápa á sjónvarp og fara snemma að sofa. Raunveruleikinn er hins vegar sá að mikið er að gera og ég verð hér til klukan 17:15. Fæ ég samúð, eða er þetta gott á mig.....

Friday, March 24, 2006

Aftur

Ari kemur á morgun og gistir aftur hjá okkur......ég hlakka til þetta gekk svo vel síðast. Barnið sofnaði uppúr átta eftir að hafa skemmt okkur fjölskyldunni og kettinum og vaknaði 12 tímum seinna og það var dásamlegt að vakna við ba la mi de se bi ne o.s.frv.

Algjör pæja

Í gær varð mælirinn allt í einu fullur hjá mér þar sem ég stóð ósturtuð, syfjuð og ólekkar fyrir framan spegilinn. Ég pantað mér í snarhasti litun og plokkun og notaði hádegið í það. Síðan fékk ég klippingu, litun og strípur hjá minni vanalegu - og það klukkan 18:30. Það er dásamlegasti tíminn - eftir langan vinnudag að setjast og lesa Hér og nú langt aftur í tímann og láta dúlla við sig. Ég var ekki komin heim fyrr en klukkan 09:45 og þá var ég sjúklega, sjúklega, sjúklega sæt.
En ekki var þetta ókeypis - ó nei.
Dr. Phil segir örugglega að ég hafi verið að flýja raunveruleikann og geti ekki horftst í augu við eigin vanda og sé ekki að "laga mig innanfrá" heldur hafi ég plástrað yfir sársaukann yfir offitu með því að láta laga yfirborðið. Já ætli það ekki bara.....kannski ég fari í ljós um helgina......

Dr. Phil

Ég horfði á helvítis viðbjóð í tækinu um daginn þar sem komin var Dr. Phil og píndi og braut niður og grætti feitt fólk. Andskotinn - í nafni einhverrar góðmennsku og sálfræðings kjaftæði þá talai hann svo ógeðslega - þú hefur komið þér í þetta sjálf - þú verður að kveðja alllt þetta neikvæða inni í þér - sjáðu hvernig þú ert og það er allt þér að kenna - lífið hefur verið þér svo hræðilegt að þú borðar til að horfast ekki í augu við raunveruleikann - þú ert allt of lin við alla í kringum þig og borðar þessvegna - þetta hljómar kannski ekkert hræðilega en prófið að horfa á hann seinni partinn á skjá einum þar sem hannn er með of feita í meðferð.
Þegar ég síðast vissi þá er fólk yfirleitt of feitt af því það borðar of mikið - allavega er það þannig hjá mér. Og þessi ótti þeirra mjóu við að verða feit og hvílíku hörmungs lífi við hljótum að lifa og að við séum sífellt að reyna að breyta okkur og okkur geti ekki liðið vel og svoleiðis endemis kjaftæði. Fyrir utan nú hvað við hljótum nú að vera löt og hyskin og hugsa illa um okkur. Ég neita því ekki að heilsunar vegna er þetta ekki gott. En nú er komið nóg af búðum fyrir yfirstæðarkonur og það er ekki vandamál. Ef ég á að vera óhamingjusöm þá lýsi ég eftir öllu þessu hamingjusama mjóa fólki.

Monday, March 20, 2006

Helgin

Nú ætla ég að vera voða fyndin og segja að ég hafi upplifað "Lost weekend". Málið er það að nú erum við hjón komin í klúbb með þeim sem horfa á heilu seríurnar samfellt og fílum í botn. Nú var það Lost yfir helgina. Vöktum allt of lengi frameftir á föstudeginum - alltaf "bara einn í viðbót". Gulli þurfti síðan að fara klukkan 04:00 til að senda út tímatökuna á formúlunni. Hann skreið uppí um 08:00 og korterí síðar hringdi klukkan á mig. Framundan borðtennismót hjá þeirri yngir á Hvolsvelli. Við hittumst síðan öll fjögur í bústaðnum seinnipartinn en það verður að segjast að við vorum ekkert yfir okkur hress og lífleg. Veðrið var eins og á sumardegi - hitinn 11 stig og engin súld í Grímsnesiun. Eftir potta ferð með freyðivín og hugguleg heitum elduðum við lamba fillet. Lamb, matur, rauðvín, heitur pottur = detta útaf snemma. Það varð því heldur lítið úr spilum og öðru skemmtilegu á laugardagskvöldinu. Allir hressir í gær og heimavinna dætranna meira og minna afgreidd í sveitinni. Gott að koma heim - 3 þættir af Lost í gærkvöldi....

Kebbbblavík

Ég er nú bara nokkuð ánægð með minn fyrirverandi kórbróður Árna Sigfússon. Ekkert vol og væl, vörn snúið í sókn og ný sóknarfæri fundin. Ætli hann hafi verið eini maðurinn sem var búin að hugsa út í hvað gerðist í atvinnumálum á suðurnesjum þegar þoturnar og kompaný færu? Allaveg þá var hann með margar ágætar lausnir - fyrir utan þetta með álver - og ekkert að vola. Árni er ágætur - bara í vitlausum flokki

Wednesday, March 15, 2006

Hvar er ég að misskilja

Það má ekki kaupa eiturlyf, það má t.d. ekki kaupa smyglað áfengi og það má ekki kaupa áfengi fyrir þá sem eru yngri en 20 ára. Og fleira og fleira sem hægt er að sekta mann fyrir.
En af hverju má kaupa konur? Af hverju er svona fjarstæðukennt að setja lög um það - ég næ þessu ekki.

Blaðamenn

Ég var að lesa hvað þeir hjá 365 sögðu við yfirheyrslu vegna Bubba málsins. Þeir sögðu það af og frá að fyrirsögning "Bubbi fallin" gæti misskilist og að nokkur gæti misskilið hana.
Hvað með fyrirsagnir eins og "Brynja ólétt" - er þá átt við að hún sé þung. "Brynja ófrísk" - er þá átt við að hún sé eitthvað lasin. "Brynja með barni" - er þá átt við að hún sé að ganga með barn sér við hlið.....ég spyr..

Blaðamenn

Friday, March 10, 2006

Heimili í rúst og góð kaup

Það er ótrúlegt drasl heima hjá mér. Við erum að setja stelpurnar í sitthvort herbergið - þær hafa verið sælar og glaðar saman en nú er sú eldri að verða 13 ára og vildi fá sitt prívasí. Þá fórum við í hrókeringar; hún fær okkar herbergi og við í herbergi sem við létum gera þegar við fluttum og höfðum alltaf hugsað okkur sem hjónaherbergi. Síðan er lítið herbergi sem hefur hingað til gengið undir heitinu "tölvuherbergi" en hver þarf slíkt núna með fartölvur. Í það herbergi keyptum við líka þessar fínu hillur í Góða hirðinum. Þetta eru svona breiðar hillur sem voru rosalega vinsælar einu sinni með bogadregnum stál-stoðum. Fullt af hilluplássi fyrir fimm þúsund kall. Þetta hentar okkur alveg því okkur vantaði ekki bókahillur heldur hillur til að geyma í. Síðan er ég búin að flokka og henda og taka alla skápa í gegn - það er nú þegar komin heill tröllasmokkur sem ég ætla að gefa í Rauða Krossinn. Ég er svo komin með fullt af þessum Ikea snyrtimennsku kössum - reyndar allar stærðir og gerðir, þegar ég er komin með alla þessa kassa eins þá bið ég ykkur að taka í taumana - þar sem ég set dittinn og dattinnn og raða fallega í hillurnar. Við gerðum líka rosa góð kaup í Ikea því við förum allaf í hornherbergið þar sem tilboðin eru - þar beið okkar líka þessi fíni gólflampi sem hafði verið sýnishorn og sá ekki á. Við stukkum á hann.
Það er rosalegt allt heima - en komm on - ég klára þetta í næstu viku og þá verður allt sjúklega fínt og snyrtó og ég þarf ekki að kvíða þessu lengur og get átt frí um páska.......Ég sagði eitthvað á þá leið að þetta yrði snyrtilegasta íbúðin í Reykjavík - dætrunum fannst nú réttar að segja frekar "kannski í götunni"

Ari, Ari, Ari og frænka

Ég fæ Ara Dignus í pass á morgun og ætlar hann að gista - tæpleg eins árs ljúflingur. Ég get ekki beðið og hlakka ofsalega til að fá lítinn kút til að kitla og kyssa og vakna með á sunnudagsmorgninum. Svona fer lífið í hring: amma Ara passaði mig þegar ég var smábarn, ég passaði pabba hans oft og mikið, pabbi hans og mamma pössuðu mínar dætur og nú fáum við elskuna litlu til okkar. Ég á ekki von á að verða amma fyrr en ég verð fjörgömul en gleð mig við annara börn.....

Ævintýri kisu litlu

Soffía okkar sat föst upp í tré í gær og þurfti að bjarga henni niður. Síðan elti hún þá yngir niðrí TBR við Glæsibæ og kom ekki heim í 3 tíma. Þær systur fóru að leita að henni rétt um átta í gærkvöldi og fundu hana skjálfandi, týnda og hrædda við bílastæðið hjá TBR og Systu. Hún varð ósköp fegin þegar þær komu og björguðu henni - þarna var líka stór kisa sem Soffía var hrædd við. Þetta er dágóður spotti frá heimilinu og yfir tvær stórar götur að fara, Álfheima og Skeiðarvog. Allt er gott sem endar vel

Wednesday, March 08, 2006

Það var

þennan dag fyrir 48 að litla stúlkan Kristín Björg fæddist foreldrum sínum þeim Kristínu og Þorsteini. Af fæðinardeild var farið heim í Sörlaskjól 6 en þar bjuggu foreldrar mínir í kjallaranum hjá móðursystur minni og hennar fjölskyldu. Einnig var á heimilinu Jensína amma mín - eina amman sem ég kynntist - hin höfðu öll safnast til feðra sinna. Fyrir á heimilinu var eldri bróðurinn Páll. Við eins árs aldur flutti fjölskyldan í Kópavoginn og bjuggum við í Hófgerði sem er yndisleg lítil gata rétt fyrir neðan Kópavogskirkjuna. Þar bættist svo í systkinahópinn hann Hannes minn. Fyrir átti pabbi Gunnar - hann býr á Siglufirði og er talsvert fatlaður.
Í Kópavogi var barnamergð mikil a.m.k. 3 börn í hverri fjölskyldu og allir á grunnskólaaldri. Gatan var eitt svað og var það lengi. Engar gangstéttir og ekki malbikað fyrr en seint á 10. áratugnum. En þetta var rosalega gaman! Allir úti langt fram eftir kvöldi í götu sem lá í hóf og gegnum akstur lítill. Svo var það líka holtið fyrir neðan kirkjuna - dásamlegur staður. Mamma fór reyndar í göngutúr þar gær og þar hafa birkiplöntur sáð sér en eiga alls ekki heima þarna. Úr Hófgerðinu fluttum við síðan þegar ég var 18 ára...... Og ári seinna flutti ég úr foreldrahúsum

Tuesday, March 07, 2006

Á morgun lýkur skammdeginu

Ég ákvað það fyrir nokkuð mörgum árum að skammdegið væri búið þann 8. mars. Ég varð að hafa einhvern ákveðin dag.
Þetta skammdegi hefur verið svona og svona. Mér hefur ekki alveg tekist að forðast árásir hundsins, en hann hefur ekki algjörlega tekið af mér ráðin eins og hann gerði í fyrra þegar hann lagði mig í heilan mánuð. Hann gerir svo sannarlega árásir og mér tekst ekki að verjast fullkomlega og hef gefist upp, en það varir ekki lengi og ég hef meiri mótstöðu en oft áður. Ég þakka það að mikilum hluta utanlandsferð um jólin. Svo er ég búin að læra mikilvægi þess að hafa jafnvægi í lífinu. Reyna að hvílast nóg, ekki ætla sér um of, og umframallt að lifa ekki of flóknu lífi og forðast þær aðstæður sem gera lífið flókið og heimtar af manni að taka ákvarðanir sem maður er ekki í stakk búin til að taka. Svo eru lyf nauðsynleg og ég ÖSKRA ef einhver nefnir gleðipillu. Þetta er svo sem ekkert spennandi, en umfram allt er að halda haus og komast klakklaust í gegnum erfiða tíma. Verst er þó skömmin; yfir að geta ekki alltaf mætt í vinnu og þessi tilfinninga að maður sé ekki að sinna börnum, maka og öðrum í lífinu og sé ferkar byrði en hitt. Ég verð líka að venja mig við þá hugsun að þetta ástand sé komið til að vera - ekki að það sé uppgjöf en ég get átt von á því allt árið um kring að gefast upp dag og dag.
En af hverju valdi ég 8. mars. Jú það er nú einu sinni alþjóðabaráttudagur kvenna og svo er tæpur hálfur mánuður í jafndægri á vori og svo.......