Monday, October 30, 2006

Tíu fingur

Ég hef haft rosalega gaman af þáttunum á sunnudagskvöldum og sit sem límd við tækið. Þetta eru frábærir þættir - góður umsjónarmaður og pródúsjónin fín. Það er svo gaman að heyra tónlistarmann ræða við aðra tónlistarmenn því spurningarnar eru markvissar og Jónas er náttúrulega afar fróður og getur reagerað á það sem viðmælendur hans segja og skotið inn skýringum ef honum þykir þess þurft.
Í gær var svo minn gamli píanókennari Halldór Haraldsson aðalið í þættinum. Og svakalega spilaði maðurinn! Hann á eftir eitt ár í sjötugt og spilalaði fanta vel og allt utan bókar. Geri aðrir betur.....

Thursday, October 26, 2006

Sólargeisli

Í dag er viðtal við nágranna okkar - hana Elvu. Hún er nýkomin frá því að keppa í fimleikum á Ólimpíuleikum. Elva er með einhverskonar þroskafrávik en er dugleg í fimleikum og syngur með Gradualekórnum í Langholtskirkju. Hún hefur nokkrum sinnum komið heim og Anna farið til hennar og hún ein sú jákvæðasta og dásamlegasta manneskja sem ég hef hitt. Hún er mikið úti á skólalóð og rólar þar eins og hún eigi lífið að leysa. Hún hefur svo fallegt og skemmtilegt viðmót að allir sem umgangast hana verða einhvernveginn léttir í skapi. Og það er svo margt fallegt og gott í lífinu.....

Wednesday, October 25, 2006

Hvernig á maður að meika þetta!

Það vita það allir sem reka heimili að það er dýrt. Svo þarf að borga af námslánum, bílalánum, húsnæðislánum, námslánum, síma, rafmagn og allt sem fylgir.
Við hjónin erum bæði ríkisstarfsmenn. Allir vita hverslags láglaunastefna er rekin hjá Ríkisútvarpinu. Í mínu fyrirtæki er launaleynd.
Í þessum mánuði bættust við eftirfarandi útgjöld: Æfingagjöld í handbolta -25.000. Íþróttagalli til að keppa í - 10.000. Greining hjá sálfræðingi - 30.000. Smurning og pera í bíl - 6.000. Sprauta og ormapilla fyrir köttinn 5.000.
Þetta eru heilar 76.000 krónur ef mér skjáltlast ekki.
Hvaðan á maður að taka þessa peninga......

Það sem ég er stundum kölluð!!!

Í gær var ég kölluð prumpulöggan

Neyðin kennir

Hvað haldið þið að ungfrú umferðarútvarp hafi notað í morgun til að skaf af bílrúðunum? Pínulítinn Smint pakka.......

Tuesday, October 24, 2006

24. október

Dagur Sameinuðuþjóðanna í dag. Ég hef áður bloggað um hversu dásamlegur þessi dagur var 1975 og ég hélt í einfeldni minni og barnaskap að jafnrétti kynjanna væri svo til í höfn.
Í dag hefði tengafaðir minn orðið 89 ára. Hann dó langt um aldur fram aðeins 49 ára. Hann varð bráðkvaddur 16. desember 1966. Gulli minn var níu ára og Siggi bróður hans 14 ára. Tengamóðir mín var 43 ára og náði sér aldrei fyllilega eftir þetta sviplega fráfall. Þau hjónin höfðu lifað hamingju sömu og innihaldsríku lífi og allt í einu er fótunum kippt undan henni. Hún fékk það viðmót frá samfélaginu sem margar ekkjur fá - þær þykja ekki æskilegar í blönduðum félagsskap.
Afi og amma Gulla fluttu inn á heimilið og sambúðin var einkar gæfurík. Hún Bryndís okkar heitir í höfuðið á langömmu sinni.

Siribiribibb

Ég var geðveikt smart í eldhúsinu í morgun. Það var viðtal við Helenu Eyjólfs og á eftir var spilað Siribirbibb. Ég notaði epli og oststykki sem Helenustokka og dansaði og söng. Það þarf ekki að taka fram að þetta féll heldur í grýttan jarðveg hjá syfjuðum skólastúlkum.
En svona líður manni þegar maður sofnar klukkan 11:00, sefur til 06:00, les í tuttugumínútur og fær svo klukkutíma lúr í viðbót. Almáttugur minn hvað það er gott að sofa vel!

Monday, October 23, 2006

Kirkjuferð

Við mæðgurnar fórum í messu á sunnudagsmorgun í Langholtskirkju. Þar var skírt barn og fékk nafnið Krista Nótt.....jæja.....

Friday, October 20, 2006

Kíkið á þessa snilld

Af málfari dóttur

Á sunnudagsmorgun var ég að sjóða egg til að hafa með morgunmatnum í sumarhúsinu. Sú stutta spurði "get ég fengið egg sem lekur" -
Í fyrrakvöld vorum við að horfa á Bráðavaktina og þá segir hún: "það er ekki xyx3y39 þarna" við foreldrarnir hváðum og hún endurtók "það er ekki xyx3y39 þarna" loksins kom það "það er ekki ekkla þarna" stúlkan meinti mannekkla. En tekið úr samhengi er þetta óskiljanlegt.....

Thursday, October 19, 2006

Gular tuskur

Í síðustu viku snemma morguns leit ég syfjuð út um gluggann í eldhúsinu. Þar sé ég sveiflast efst á trjánum fullt af gulum afþurkunarklútum. Þegar ég athugaði málið betur voru þetta stærstu og síðustu asparlaufin sem sveifluðust svona á trjátoppunum.
Haldið þið að ég þurfi að fara í frí - eða er eðlilegt að sjá gular tuskur á trjám......

Wednesday, October 18, 2006

Ný brýna þeir kutana

Og stinga fast. Samband ungra Sjálfstæðismanna er mótfallið hugmyndum BB um leyniþjónustu. Þetta er náttúrulega stríðsyfirlýsing svona rétt fyrir prófkjör. Formaður flokksins á hauk í horni þar sem stjúpsonur hans er - sem er reyndar formaður SUS. Það á greinilega að koma BB sem lengst frá áhrifasæti á listanum. Ekki það að ég syrgi það - ó nei......

Friday, October 13, 2006

Vikan

Þetta er búið að vera erfið vika

Thursday, October 12, 2006

"Do you want to fuck?"

Setningu síðustu viku átti Elísabet Jökulsdóttir í Kastljósinu á föstudagskvöld: "Hello mr. Zidane. My name is Elísabet Jökulsdóttir. Do you want to fuck"

Þetta á nú nokkuð vel við mig í þessa daga.....

Your walk is:
Zombie-like

QuizGalaxy.com

Take'>http://www.quizgalaxy.com/quiz.php?id=78">Take this quiz at

Wednesday, October 11, 2006

Umheimurinn

Nú til dags er lítið mál að hafa samband við föðurlandið þó svo fólk sé í útlöndum. GSM-símar, sms, mns, mbl,ruv,skype,blogg o.s.frv. Og ég hef heyrt á máli fólks að jafnvel þó svo ungmenni fari sem skiptinemar eða til náms erlendis þá lengist bara naflastrengurinn.
Mér datt þetta svona í hug þegar ég sá myndir af leiðtogafundi Regans og Gorbsjovs í gær.
Ég hef tvisvar búið í útlöndum - fyrra skiptið 1976 þegar ég var 18 ára þá var ég í Noregi í þrjá og hálfan mánuð. Á þeim tíma þá hringdi ég einu sinni heim og það var afþví að mamma varð 50 ára. Pabbi hringdi svo einu sinni í mig því hann var staddur í Noregi.
Þegar ég bjó í Íþöku frá 1985 - 1987 þá var hringt á milli heimsálfa kannski einu sinni í mánuði. Mamma sendi mér gjarnan moggann og var þá búin að klippa út fasteiganauglýsingarnar til að létta blaðið. Svo bárust þær fregnir að leiðtogafundurinn ætti að vera á Íslandi!!!! Við íslendingarir í Íþöku vorum alveg rosalega spennt og söfnuðumst saman á heimili Hannesar og Soffíu kvöld eftir kvöld til að fylgjast með kvöldfréttum stóru sjónvarpsstöðvanna. Það voru allir komnir í stellingar klukkan 18:00 og svo var svissað á milli stöðva því kvöldfréttir voru á sama tíma á ABC,CBS og NBC. Okkur þyrsti að sjá myndir að heiman og fögnuðum ógurlega þegar Steingrímur Hermannsson steig upp úr sundlauginni og talaði um álfa.
Breyttir tímar.........

Innlit/Útlit

Er ég forpokuð kelling farin að nálgast fimmtugt sem hef allt á hornum mér? Eða er þetta alveg allt í lagi. Ég sá hluta úr Innliti/Útliti í gær þar sem verið var að skoða eldhúsinnréttingar hjá BYKO. Og lagið sem var leikið undir heitir Biko og fjallar um Steve Biko sem var drepin í fangelsi í Suður-Afríku á aðskilnaðaratímanum. Mér finnst þetta heldur ósmekklegt......

Tuesday, October 10, 2006

Morgunstund

Lítill hlýr kroppur eftir nætursvefn. Mjúkt faðmlag. Kúrt í hálsakoti. Ari minn

Saturday, October 07, 2006

Bíó

Ég og sú eldri fórum að sjá Börn í dag og ég var mjög hrifin. Eins var ég rosalega hrifin af tónleikunum með Sinfó,Ragnheiði og Eivöru sem voru í sjónvarpinu í gærkvöldi. Þetta var fínt undirspil með föstudags happy hour...

Söguskýring

"Sko - þegar Jón Sigurðsson fór til Kaupmannahafnar þá var hann trúlofaður frænku sinni sem okkur finnst ógeðslegt nú til dags. Hún beið eftir honum í tólf ár og mátti ekki tala við neina aðra menn og þegar pabbi hennar Ingibjargar dó þá varð Jón að koma til Íslands og giftast henni"

Friday, October 06, 2006

Samræmd próf í 7. bekk

Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarið um samræmd próf í 7. bekk og hvernig lesblind börn eiga að taka þessi próf. Í mogganum í dag er viðtal við föður lesblinds drengs sem á að taka samræmd próf í íslensku og stærðfræði í mánuðinum. Og svo hefur síðdegis útvarp rásar tvö einnig fjallað um þessi mál.
Þetta mál er allt það einkennilegasta. Það má ekki lesa fyrir börnin þann hluta sem reynir á lesskilning en svo má spyrja þau munnlega út úr texta sem þau eiga að vera búin að les. Þetta er náttúrulega þvílík þversögn því lesblint barn skilur ekki texta sem það þarf að lesa en getur skilið alveg ágætlega ef textinn er lesinn fyrir barnið.
Svo er líka annað mjög einkennilegt og það er að við sem foreldrar ráðum engu um hvort barnið tekur þessi samræmdu próf eða ekki. Þetta gekk svo langt hjá mér í fyrra að við melduðum barnið lasið til að hún þyrfti ekki að taka þessi próf. Semsagt betra að vera óheiðarlegar heldur en að okkur sé trúað þegar við segjum að barn hafi ekkert að gera í þessi próf. Dóttir mín hafði ekki hugmynd að hún væri melduð veik enda hefði hún verið mjög mótfallin því að ljúga að skólayfirvöldum.

Wednesday, October 04, 2006

Bolir

Ég hef alltaf haft gaman af bolaskilgreiningu Björgvins Halldórs - öll erum við bolir.
Ég var t.d. hrikalegur bolur þegar ég fór niður í morgunmat á hótelinu s.l. laugardag í eiturgræna kvennahlaupsbolnum mínum. Eiga ekki 22000 aðrar íslenskar konur slíkan bol?
En mesti bolur sem ég hef séð er kona sem var með okkur stallsystrum á namskeiðinu á Fjóni fyrir þrem vikum. Hún var fyrsta daginn í Dolce&Gabana buxum og bol, annan daginn í D&G bol - báðum hreint forljótum. Við vorum eitthvað að flissa yfir þessu brussurnar og í teitinu sem var seinna kvöldið kom enn einn bolurinn. Þegar hún síðan birtist í þeim fjórða á lokadegi þá máttum við Margrét ekki horfast í augu - þetta var brjálæðislega fyndið.
Er svona flott að vera í bol sem segir "ég get keypt mér dýr föt. ég þarf ekki að hafa smekk og skoðun því að allir sjá að ég vel aðeins dýrar vörur"
Og þetta að vera eins og gangandi auglýsing - það er svo barnalegt. Þetta minnir mig á unglinginn minn sem veit ekkert smartara en að vera í merkjavöru.

Tuesday, October 03, 2006

Rullur

Stelpurnar eru báðar komnar með hlutverk í nýrri mynd Ara Kristinssonar - lítil að vísu en samt spennandi. Bryndís er með nokkrar línur og verður a.m.k. 3 daga í tökum en Anna er statisti í hóp krakka og verður um 2 daga í tökum. Þetta er skemmtilegt....

Monday, October 02, 2006

Spurning gærdagsins var...

....mamma geta leggöng verið þunglynd? Þær höfðu þá verið að horfa á gamlan þátt úr Sex and the City og þar var talað um þetta (örugglega Samantha)

Home sweet home

Danmerkur ferðin var fín - ansi mikill sprettur - en námskeiðið var mjög fínt og þetta er eins og vítamínsprauta. Hóteli við Austurstræti var flott - hafði pantað mér eins manns herbergi en fékk þriggjamanna herbergi upp í risi. Tókst að hitta kontrabassaleikarann frænda minn og við fengum okkur öl á tveim krám á föstudagskvöldið. Fór ekki einu sinni á Strikið í þessari ferð en gerð magninnkaup á nærfötum á dæturnar í H&M í Hilleröð.
Ekki sá ég neina fræga í Köben eins og www.thordis.blogspot.com sá í Svíþjóð en ég rakst á einn gaman kennara úr gaggó. Hann er nú pokaprestur í uppsveitum Borgarfjarðar. Ég veit ekki hvort hann er eins illgjarn og andsyggilegur og hann var fyrir rúmlega 30 árum en hann er allavega alveg eins spjátrúnslegur í klæðaburði.