Monday, August 30, 2004

Aþena

Aþena var frábær - ógleymanleg ferð - meira síðar......

Friday, August 20, 2004

Berbrjósta eður ei

Finnsti ykkur hann ekki ótrúlega dónalegur kallinn sem sér um svæðið í Nauthólsvík - hann lætur hafa eftir sér í blöðunum að það séu oftar en ekki þær konur sem síst ættu að vera berbrjósta sem séu það á góðviðrisdögum í víkinni. Sko honum kemur ekkert við ef ég vil liggja á mínum stóru, mjúku, tveggja brjóstagjafajúllum í sólinni. Ja hérna - eitthvað yrði sagt ef karlar með meðalbrjóst og bumbuna út í loftið fengju það komment að þeir ættu nú helst að vera í bol við skýluna!

Thursday, August 19, 2004

Hasshaus í fyrra lífi?

Já ég held ég hafi verið útúrreyktur hasshaus í fyrra lífi og nú sé verið að hegna mér fyrir það.
Allavega á lýsing á andlegu ástandi hasshausa ágætlega við mig þessa daganna eða vikurnar,
Ég á erfitt með að koma mér að verki, mig langar að gera fullt af hlutum, hringja í fólk og fara á kaffihús, taka til heima hjá mér, en ég kem engu í verk og bara svona einhverveginn bara dólast þetta, lesa og glápa á sjónvarp og videó og liggja í Nauthólsvík. Ég er sem betur fer farin að vinna aftur, þannig að ég drullast þó þangað, en þetta er voðalegt ástand á einni konu!

Wednesday, August 18, 2004

Áhrifamikil mynd

Ég tók á bókasafninu um daginn mynd sem mun seint gleymast - Lilya 4-ever. Þvílíkar hörmungar sem söguhetjan gekk í gegnum og þvílík mannvonnska í einum heimi. Ég sat sem lömuð á eftir. Ég hélt að ekkert gæti verið hörmulegra en aðstæður hennar í heimahögum, en annað átti eftir að koma í ljós. Er þetta raunsönn lýsing á meðferð þeirra kvenna sem lenda í mansali? Ég efast ekkert um það, en veit kannski ekki nógu mikið um málið. Veit einhver eitthvað meir?

Tónleikar

Ég ákvað fyrr í sumar að láta alla þessa tónleika fram hjá mér fara - en svo er Marianne Faithful að koma og í henni verð ég að heyra. Ég er nú það ung að ég man ekki eftir henni 1964 (þó ég hafa átt as tears go by á vinil í eina tíð) en hef verið einlægur aðdáandi hennar síðan hún kom aftur fram á sjónarsviðið 1979 - ætla einhverjir fleiri?

Taka tvö

Jæja - þá ætla ég að reyna aftur þetta skemmtilega blogg. Ég er búin að vera í afar löngu og góðu fríi, fór um landið - norðu, vestfirði, dalina og snæfjallaströnd. Var í síðustu viku þegar verðrið var sem best á Snæfjallaströnd, og hvílík fegurð! Blankalogn og djúpið með Æðey í forgrunni, alveg hreint ótrúleg sjón. Skygni var ekki mikið vegna hitamisturs og þess vegna sást ekki yfir Djúpið til Hnífsdals og Bolungarvíkur. Mamma mín er fædd og uppalin í Hnífsdal, hafði sem barn horft yfir á Snæfjallaströnd og langaði nú að sjá heimahagan yfir Djúpið. Við verðum bara að fara aftur næsta sumar í þeirri vona að veðrið verði ekki alveg eins gott!
Við vorum einnig í Dölunum og keyrðum Fellsströnd og Skarðsströnd. Þangað hafði ég ekki komið áður. Við fórum einnig að bæ Eiríks rauða og fengum örfyrirlestur um hann og hans fjölskyldu. Ég þekki ekkert til íslendingasagna og því kom sér vel að vera með mömmu sem hefur farið á nokkur námskeið hjá Jóni Bö.
Fyrr í sumar vorum við vísitölufjölskyldan nokkarar nætur í Pálshúsi í Hnífsdal. Sumarið 1979 vann ég í frystihúsinu þar í bæ og stundaði sveitaböllin í félagsheimilinu. Það var gaman að koma á fornar slóðir og börn og buru. Í Pálshúsi var mikið fjör þessa viku - þegar mest var vorum við þar 10 sem gistum. Sól skein í heiði, logn undur húsvegg, fjörugar samræður, hestar í haga sem börnin heimsóttu, grill, rauðvín og fullt af annari óhollustu. Fórum og dorguðum á bryggjunni í Bolungavík og þar fá börn lánuð björgunarvesti fyrir dorgið. Góð hugmynd! Nokkrir ufsatittir á stöng. Er komin til vinnu og að setja mig í stellingar fyrir veturinn. Ferðalögum ekki alveg lokið - meira um það seinna