Wednesday, August 30, 2006

Spæling

Það rann upp fyrir mér þegar ég var að horfa á Bráðavaktina áðan hvað var ekki eins og það á að vera. Það vantar John Carter. Ég held að hann hafi verið sá síðasti af upprunalega leikarahópnum. Ég á eftir að sakna hans. Gaman að ANTM er byrjað aftur. Óvenju glæsilegur og fjölbreyttur hópur.

Tuesday, August 29, 2006

Sinfóníu tónleikar

Þegar ég las að spila ætti allar Brahms sinfóníurnar og alla Beethoven píanókonsertana hjá Sinfó í vetur þá greip mig óstjórnleg löngun til að kaupa mér kort. Ég man ekki síðast hvenær ég heyrði Beethoven píanó konsert á tónleikum. Ég ætla að kaupa mér regnbogakort á fimm tónleika því mig langar líka á Mozart tónleikana. Þegar ég var ungur tónlistarnemi þá fussuðum við og sveiuðum yfir svona kerlingum eins og mér sem bara komu á tónleika þegar leikin voru þekkt verk. Nú er ég semsagt orðin ein af þessum kellum. Það verður t.d. gaman að heyra í John Lill aftur en hann á að spila konsert númer 5. Hann hefur komið a.m.k. tvisvar til landsins og til var plata með honum heima þar sem hann spilaði Beethoven sónötur. Ég held að hann hafi einu sinni unnið Tjækoffsí keppnina. Svo spilar Víkingur líka þann númer 3 að ég held. Og Christina Ortiz spilar númer fjögur. Ég er farin að hakka til. Það verður dálítið rýmri hjá mér tíminn þar sem ég ætla að vera áfram í fríi frá Dómkórnum mínum væna......

Dry martini

Heyrði svakalega góða sögu af vinkonu mömmu sem var á ferðalagi í Berlín. Hún pantaði sér tvisvar þurran martini fyrir matinn og í bæði skiptin var komið með þrjú glös...........

Friday, August 25, 2006

Af tísku og töffheitum

Þegar ég var að komast á unglingsárin svona í kringum 1970 - 1972 þá bárust hingað myndir af hippum í USA sem klæddust gallabuxum sem búið var að klippa skálmar af þ.e. gallastuttbuxum. Þetta þótti rosaflott og nú gengu allir í slíku þegar veður leyfði. Ekki féll þetta í kramið hjá þeim eldri því þeim fannst þetta druslulegt; ekkert faldað og vasarnir komu jafnvel niðurfyrir skálmarnar.
Um daginn þá sat ég á hárgreiðslustofu og gleypti í mig af áfergju Séð og heyrt. Þar voru m.a. myndir af einhverri rosalega fínni verðlaunaafhendingu í Þjóðleikhúsinu og var vandlega tekið fram á myndunum hvar konurnar fengu kjólana sem þær voru í og einnig var talsvert fjallað um fylgihluti. Á einni myndinn var mynd af konu sem var vægast sagt mjög drusluleg í þessu samhengi því hún var í hippa-stuttbuxum. Kona þessi erfið talsverð auðæfi og er ein af þeim efnaðri í landinu. Ekki veit ég hvað hún gerir en hún birtist iðulega á síðum tímarita sem viðhengi með manni sínum sem er þekktur og farsæll sviðs/kvikmynda leiksjóri.
Undir myndinni var konan nafngreind og blaðamaðurinn hélt hvorki vatni né vindum yfir hvað þetta væri nú rosalega smart, lekker og flottur klæðnaður á konunni ......og skálmarnar niðrúr og allt. Endaði síðan með að nafngreina konuna og sagði að viðkomandi klikkaði nú ekki þegar tíska væri annars vegar.
Ég þykist viss um að ef einhver annar en viðkomandi kona hefði mætt í slíkri múnderingu á þessa hátíð þá hefði sú manneskja verið gerð brottræk.

Búin

Kláraði "hundinn" í gærkvöldi. Mæli með þeirri lesningu. Byrjaði á bók eftir Paul Auster sem ég hef verið að lesa talsvert undanfarið. Mikið er gaman að lesa!!!!
Mín eldri hefur varla klárað bók - sú yngir er ekki mikill bókaormur en les nú stelpubækur á ensku á fullu....

Thursday, August 24, 2006

Andvaka

Allt vegna Magna og Supernóva!!!!
Nei grínlaust þá er ég að lesa Furðulegt háttalag hunds um nótt og er heltekin. Þetta er orðið svo spennandi að ég reyndi þrisvar að slökkva en ekkert gekk. Mæli með henni. Svo las ég upp stærðfræði pælingarnar drengsins fyrir stóra manninn mér við hlið. Skemmtilegt pillow talk...
En segið mér - af hverju er það ekki háttarlag með erri.....íslenskufræðingar koma sooooo

Wednesday, August 23, 2006

Önnur tilvitnun

Það er ekki vandamál samkynhneigðra ef Kirkjan á ekki annað erindi við þá en að segja þeim að leita sér lækninga við þeim kvilla að vera þeir sjálfir.
-- Guðmundur Andri Thorsson

Kossar og knús í morgunsárið

Tvær stúlkur 11 og 13 ára voru kysstar vel og knúsaðar af mömmu sinni þegar lagt var upp í fyrsta skóladaginn. Reyndar eru þær búnar að tilkynna mér að þær vilji vakna sjálfar á morgnanna og koma sér sjálfar af stað en ég fékk ekki betur séð en að þær kynnu að meta gott brauð með nýju rifsberjahlaupi smurt af mömmu í morgunmat. En ég er að sjálfsögðu ánægð ef hægt er að klára öll mál á kvöldin og þær fari einar á fætur. Svo er nú aldrei langt að fara inn til pa og ma ef eitthvað er að.
Mamma mín vaknaði nú alltaf með okkur og var búin að leggja á morgunverðarborð og mikið fannst mér það notalegt.

Tuesday, August 22, 2006

Skil ekki

Í fréttum í gær var sagt að bandaríkjamenn ætluðu að styrkja líbana um svona og svona marga miljarða dollara til uppbyggingarstarfs eftir árásir ísralesmanna. En bíðið við - fengu ekki ísraelar styrk frá bandaríkjamönnum til að sprengja í Líbanon?

Jibbý

Bráðavaktin byrjar á miðvikudag - húrra fyrir pylsugerðarmanninum.
Svo er ég líka alvarlega sokkin niðrí þáttinn á RÚV sem heitir Mannamein og gerist á kvennadeild. Þetta er það blóðugasta sem ég hef séð í sjúkrahúsþáttum en eitthvað hryllilega heillandi. Hef talsverða reynslu af kvennadeildum vegna tveggja keisarskurða og tveggja stórraskurða þar fyrir utan. Sé fyrir mér lækna tala um holdafar mitt og ég steinsofandi. Einnig sé ég þá fletta upp á mér húðinni og athafnasig. Ég sé nú ýmislegt fyrir mér - blóðugt og......

Friday, August 18, 2006

Blaðið á morgun

Á morgun verð ég í Blaðinu. Skrifaði um vellíðan - hvernig mér líður best. Hingað kom ljósmyndari og tók mynd af mér með malandi Soffíu í fanginu. Ég var gjörsamega ómótsæðileg. Kannski er þetta upphafðið af fyrirsætuferli mínum. Ég hef mikla trú á því

Eytt og grætt

Í dag eyddi og græddi á tá og fingri. Innkaupin vegna skóla stelpanna var 11 þúsund. Engin skólataska þetta árið en tvö pennaveski. Sá líka þessi ógurlega flottu kúrekastígvel í skóbúðinni í Glæsibæ. Þau áttu að kosta 18000 en ég fékk þau á 10000. Fórum síða í Outlett búðina í skeifunni. Gallabuxur á 5000 á Önnu en höfðu áður kostað 10000 í einhverri tuskubúð í Kringlunni. Sólgleraugu á mig á 250 - úr 2500. Bolur á Bryndís á 299.
Ég er afskaplega kaupheft manneskja þannig að þetta er talsvert afrek. Svo var mikil gleði því ég harðneyta að kaupa buxur fyrir 15 - 20 þúsund á barnið eldra. Finnst það hreint fáránlegt. En fæ að heyra það með reglulegu milli bili að þessi og hinn eigi svona margar buxur af einhverri tegund. En nú fékk hún buxur sem eru "merki"
Hún spurði í klefanum hvaða merki þær væru. Fékk þau svör að ekki skipti máli hvað föt hétu bara að manni líkaði þau. Er uppgefin eftir ævintýri dagsins. Hér er allt vaðandi í drasli. Hvað með það. Ég ætla að fá mér bjór og elda.

A búú

Liðið vaska tíndi rétt tæp sex kíló á nó tæmi. Nú er bara að sjóða og setja í gas og síðan á morgun fer sykurinn samanvið og allt í krukkur. Ég nota uppskrift frá mömmu Systu - klikkar aldrei. Ég hef reyndar aðeins minnkað sykurinn og það hefur ekki komið að sök. Systa - ég sendi Gulla með krukku til þín í vinnuna....

Tína ber

Þrír út að tína rifsið - ég inni að hreinsa og vigta - nýtt rifsberjahlaup á morgun.......

Thursday, August 17, 2006

Þrjú mannslíf

Manni er orða vant eftir hörmungar gærdagsins

Wednesday, August 16, 2006

Tilvitnun dagsins

Það hefur hver sinn djöful að draga og við höfum Gunnar í Krossinum -- Hrafnhildur Gunnarsdóttir

Tuesday, August 15, 2006

Bráðum skellur skólinn á

Bara vika til stefnu. Unglingurinn ætlar aldeilis að njóta þess og ekki fara á fætur fyrr en til neydd. Og er ógurlega kvíðin því að geta bara sofið út um helgar. Sú yngir er á fótboltanámskeiði fyrir hádegi þessa viku og verður þessvegna komin í þjálfun þegar skóli hefst. Það verður nú bara nokkuð gott þegar lífið fer að ganga sinn vanagang

Saturday, August 12, 2006

Fiskidagurinn mikli

Sá myndir frá Dalvík í fréttum áðan. Við vorum á Dalvík fyrir 2 árum á þessum frábæra degi. Við höfðum gist í Skagafirði á þeim fagra bæ Skálá og byrjuðum daginn á sundi í Ólafsfirði. Síðan lá leiðin í dásamlegu veðri á Dalvík og þetta er algjörlega ógleymanlegur dagur. Fiskurinn, fólkið, stemningin - ég skora á fólk sem ekki hefur upplifað þenna dag að fara og a.m.k. einu sinni og prófa. Jafnvel maðurinn minn sem ekki er mikil fiskæta naut sín í botn.
Eftir Dalvík var farið á Sigló og Gunnar bróðir minn heimsóttur. Svona var nú það fyrir tveim árum. Nú er ég að blogga, Gulli að horfa á tv, stelpur í stússi hvor í sínu herbergi og gestur hjá afmælisbarninu. Dominospizza í kvöldmat og allt rólegt á austurvígstöðvunum í Vogahverfinu. Ætla að leggjast með góðan reyfara og sofna snemma og vakna seint eins og undanfarnar vikur. Góða nótt......

Friday, August 11, 2006

Dásamleg della

Nýjasta dellan er Melrose place alla daga klukkan 19:45. Passar algjörlega inn í dagskrána því eftir að hafa hlustað á fréttir klukkan 18:00, horft á fréttir bæði á NFS og RÚV er rosalega notalegt að setja sig inn í vandræði uppanna í Los Angeles....

Letiogbækurogmaturogbjórogpotturograuðvínogogog

Nokkurveginn svona hefur síðasta vika verið. Vorum í athvarfinu fyrir austan í mikill velsæld. Reyndar var fjölmenni hjá okkur um verslunarmannahelgina því á laugardags, sunnudags og mánudagskvöld vorum við 15 við borðið.Ekki það að ég stæði aftan við eldavélina eins og ráðherrann sagði. Við vorum 7 hjá okkur - svo var vinafólk okkar með sína vini í bústað í nágrenninu. Svo kom vinakólks mágs míns með sín börn, tendabörn og barnabörn og tjölduðu á blettinum hjá okkur og allir lögðu til mat og vinnuafl. Reyndar létum við hjónin ljós okkar skína á sunnudagskvöldinu þegar ég stútfylti 15l pottinn með gúllassúpu og Gulli grillaði brauð. Ég fylltist miklu húsmæðrastolti og dáliltum jesúkomplexum þegar ég metti svo marga munna. Helgin framundan og litla barnið mitt 11 ára á morgun og svo er gay pride og ég er í kattar gæslu.Svo er slatti af þvotti. En lífið er dásamlegt......

Friday, August 04, 2006

Bónus/Krónan

Ég hef stutt dyggilega við bak Bónus feðga um langa hríð en er búin að uppgötva Krónuna og er að hugsa um að snúa viðskiptum mínum þangað. Búðin uppi í Húsgagnhöllinni er mjög flott og fín og svo eru minni verslanir um allt. Ég fæ ekki betur séð en að verðið sé sambærilegt og úrvalið er talsvert. Ég keypti og eldaði nautahakk þaðan í gærkvöld og það fínt.

Árla morguns

Ég er komin á fætur og klukkan ekki 09:30!!! Slíkt gerist ekki þegar ég er í fríi en allt getur brugðist...Ég á vona á Ara mínum í pössun og hlakka til að knúsa og kyssa. Svo ætlar vinafólk okkar að koma í morgunmat og er Gulli í bakaríi að kaupa eitthvað gott.....

Barnið/unglingurinn

Nú erum við hjónin orðin opinber "foreldrar fermingrbarns" því fyrsti mark/ruslpósturinn barst okkur í gær. Hann var frá Siðmennt um borgararlegar fermingar. Við höfum verið að ræða þetta mæðgur - mér er nákvæmlega sama hvort fermingin verður í kirkju eða Háskólabíói, það eina sem ég vil er að barnið geri sér grein fyrir að hún hefur val. Hún er búin að samþykkja að lesa bæklinginn til að athuga hvað borgralega ferming þýðir og hvað það þýðir að fermast í kirkju. Ég var í miklum vafa á sínum tíma hvort ég ætti að fermast en ákvað síðan að fylgja fjöldanum. Hannes bróðir minn fór í alla fermingarfræðslu en ákvað að fermast ekki. Það var nánast óþekkt 1975 en hann var harðákveðin og foreldrar okkar studdu þessa ákvörðun.